Móðir minnir á sig.

Á aðventunni hugsar maður oft mikið til þeirra sem ekki eru lengur á meðal okkar og ekki síst til foreldranna og jólanna á bernskuheimilinu.
Mér fannst því táknrænt, þegar ég var að stressast um með ryksuguna einn daginn og heyrði allt í einu fyrir aftan mig að eitthvað féll í gólfið. Ég þorði varla að líta við  til að sjá, hvað ég með flumbruganginum hafði nú brotið, en þegar ég loksins þorði að líta við þá sá ég að snúran hafði  flækst  utanum gamalt skrín sem var rétt við innstunguna sem ég hafði notað fyrir ryksuguna. Þetta skrín   hafði móðir mín átt  og í því geymdi hún ýmislegt smálegt, aðallega handavinnutengt.  Skrínið hafði hentst út á gólf, en það eina sem hafði dottið úr því var þessi vísa sem móðir mín hefur ort eftir að hún var orðin gömul því ég sé það á skriftinni og stafsetningunni, en mamma var alltaf svo góð í stafsetningu en þarna hefur henni verið farið að förlast.

Þessi vísa er ekki um jólin en ég setti hana samt í samband við jólin ekki síst af því  hún var að minna á sig núna, en ég hef ekki opnað þetta skrín lengi og mundi ekki eftir vísunni. Ég ætla að leyfa ykkur að sjá hana (ég lagaði aðeins smá stafsetningarvillu):

                                   Hér er marga muni að sjá
                                   og margt sem þarf að geyma,
                                   þetta minnir mig líka á
                                   mína bernsku heima.

                                                            VSÞ

Hérna er þetta gamla skrín sem hefur staðið óhreyft með því innihaldi sem í því var þegar móðir mín lést.  Neðri myndin sýnir innihaldið og blaðið með vísunni sem var efst og það eina sem datt úr þegar skrínið féll. 

minn1.jpg

minn2.jpg
 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Móðir minnir á sig.

  1. Linda says:

    Það held ég að sé alveg rétt hjá þér, mamma þín hefur heldur betur verið að minna á sig.. Sérstaklega þar sem þetta fallega skrín hefur aldrei verið opnað eftir að hún kvaddi þennan heim..
    Fallegt ljóðið eftir hana..
    Þetta hlýtur að hafa verið dálítð sérstök stund hjá þér að heyra boxið falla og bara þetta ljóð dettur úr..

    Farðu vel með þig Ragna mín..

  2. Anna Sigga says:

    Magnað!
    Gaman að fá að sjá vísuna og skriftina hennar mömmu þinnar.
    Farðu vel með þig, Ragna mín!

  3. Þórunn says:

    Skrín
    Svona hlutir eins og skrínið hennar mömmu þinnar, eru svo miklar gersemar, þegar sem þau minna okkur á fyrri eiganda. Og einkanlega þegar þeir gera svona greinilega vart við sig.
    Góðar kveðjur að sunnan, Þórunn

  4. afi says:

    Ekki ein
    Það var gott hjá móður þinni að minna á sig með þessum hætti. Annars er það merkilegt hvað mikill ævintýraljómi er yfir bernsku jólunum. Vísan er góð og á vel við í dag sem aðra daga.

Skildu eftir svar