Kveðja frá Jólastressu.

Ég held að ég sé alveg að missa mig í að skreyta hjá mér fyrir jólin þrátt fyrir það að ég var búin að ákveða og einnig að lýsa því yfir að nú ætlaði ég bara að skreyta lítið.

Ég hef verið að hugsa um hvað það sé nú mikil della að vera að þessu mikla jólastressi sem gerir mann ómögulegan af gigt og svefnleysi.  Síðan, eins og Ragnar nokkur Reykás nafni minn gerir gjarnan þá snerist mér hugur og ég fór að hugsa um hvað það væri sem kallað væri jólastress. Þá komst ég að því að jólastress er einmitt allt það sem ég hef svo mikla ánægju af að gera fyrir jólin þó svo að ég fái að finna fyrir því á gamla skrokknum mínum. Það sem kemur mér í jólaskap er nefnilega það, að finna ilminn af smákökubakstrinum, og að finna góðu hreingerningarlyktina  og síðan að skreyta húsið, en þar hef ég nú enn eina ferðina  farið gjörsamlega hamförum.  Það er nefnilega svo óendanlega gaman að setja upp allskonar ljós og jóladót og horfa svo á með stjörnur í augum.

Ég notaði tækifærið af því Haukur er heima núna fram á miðja vikuna, að láta hann hjálpa mér að koma upp trénu og skreyta það, en auðvitað má ekki hafa ljós á trénu fyrr en á jólunum en mikið rosalega er erfitt að hafa það í stofunni svona fullbúið og fá ekki að kveikja á dýrðinni – en stundum bara verður maður að hemja sig og ekkert múður með það.

Jæja, best að vera ekki að slóra þetta í tölvunni og halda áfram að skreyta og skreyta. Ætli ég verði ekki á endanum sett í spennitreyju. Þið fréttið það þá fljótlega  því þá kemst ég ekki í tölvuna.

Nú hætti ég þessu rugli og sendi ykkur öllum kærar kveðjur frá Jólastressu í góðu skapi  á Selfossi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Kveðja frá Jólastressu.

  1. Sigurrós says:

    Mikið hlakka ég til að koma um helgina og sjá allt skrautið! Vona bara að þú verðir ekki komin með blikkandi seríu í gestaherbergið eða uppblásinn jólasvein í fullri stærð sem rennir sér fram og aftur eftir þakinu hrópandi „hó hó hó“ 😉

  2. Mamma says:

    Nei Sigurrós mín, engir slíkir jólasveinar. Ég var búin að biðja Hauk um að taka þetta að sér en hann verður að vinna svo það verður enginn Hó,Hó,Hó, nema nágrannarnir verði lannski í stuði. Ég hlakka mikið til að fá ykkur Jóa og bumbubúann og gestaherbergið bíður bara eftir jólagestunum .

  3. afi says:

    Jóladugnaður
    Þetta er nú meiri eljan. Ekki einu sinni flóð og óveður fá raskað ró þinni. Þetta verður sannkallað jólahús hjá ykkur.

  4. Svanfríður says:

    Rétt eftir þakkargjörðahátíðina sem er í lok nóv þá byrjar fólk á því að setja upp jólatré sín. Ég geri mér fulla grein fyrir að þetta er „kúltúr“munur á milli landa en ég á afskaplega erfitt með að venjast þessu því ég segi eins og þú-jólatré á að vera tendrað á jólum:) En sinn er siðurinn í landi hverju.
    Skreyttu eins mikið og þú vilt-þú átt þetta hús er það ekki:)

  5. Þórunn says:

    Jólagleði
    Sæl Ragna mín, það er greinilega mikil jólagleði ríkjandi í þínu húsi, mikið væri gaman að líta inn til þín núna og sjá hvað þú hefur verið að brasa, það er örugglega mjög fallegt hjá þér. Það er svo gaman að varðveita barnið í sér og gleðjast yfir hverjum hlut, sem hefur sínar góðu minningar sem rifjast upp um leið og hann er settur á sinn stað.

Skildu eftir svar