Úfin Ölfusáin og ójólalegt veður.

Ég var aðeins á ferðinni úti áðan og hvílík tilviljun, myndavélin var með í för 🙂

Ég fór auðvitað niður að Ölfusánni til að sjá hversu mikið hún hefur vaxið síðan í gær. Það er talsverð aukning en ekki eins mikið af klakastykkjum að veltast um í henni eins og í gær. Ég stoppaði nú ekki lengi áðan því það er orðið svo rosalega hvasst og kalt og gengur á með hvössum éljum..

Þetta er alveg ótrúlegt veðurlag og þegar ég vaknaði í nótt við hvílíkar drunur þá vissi ég ekki hvað væri að gerast, en vonaði þó að áin væri ekki komin heim að dyrum hjá mér. Þetta var þá svona rosalegt haglél og hvassviðri mikið með.

Eitt er víst þetta er sko ekki það jólaveður sem maður helst getur hugsað sér en við fengum nú nokkra mjög fallega daga í síðustu viku og myndir sem ég tók þá ætla ég aðeins að geyma að setja inn.

Mér hefur þó verið hugsað til fólksins fyrir norðan sem fékk aurskriðu inn í húsið sitt og leðjan náði upp að hné í öllum vistarverum. Ömurlegt.

Núna á meðan ég er að pára þetta þá er komið enn meira hvassveður og éljagangur svo að nú er jörð orðin hvít. Ég útiloka þá endanlega að fara í bæinn í kvöld í stútentsveislu hjá Heiði, frænku stelpnanna minna. Nú bara vona ég að veðrið á Þorláksmessu verði þannig að við austanfólk komumst í Skötuveisluna hjá Lofti en hún er árleg á afmælisdegi tengdamömmu 23. des.

En nú aftur að Ölfusánni, sem hér veltist áfram og ég held að mig langi bara
ekkert til að ferðast yfir brúna á meðan hún erí þessum ham.

olfusa12.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Úfin Ölfusáin og ójólalegt veður.

  1. Jólin koma
    Sæl Ragna, var hugsað til þín þegar ég sá fréttirnar frá Selfossi og áin ykkar í ham. Var líka að lesa um vísuna hennar mömmu þinnar, merkilegt að svona skuli gerast, minningarnar koma flæðandi inn þegar svona nokkuð gerist. Bestu jólakveðjur til þín og þinna og vonandi verður árið 2007 friðsamlegt og okkur öllum til ánægju, Gurrý

  2. Þórunn says:

    Ólgandi áin
    Ég er búin að fara oft inná síðuna þína í dag til að gá hvort þú kæmir ekki með mynd af ólgandi ánni. Svo kom þessi mynd sem sýnir hvað áin getur orðið ógnandi. Vonandi fer þetta að ganga yfir, en við sjáum lægðirnar koma til ykkar í löngum bunum. Það er gott að vera inni í hlýju húsi þegar veðrið lætur svona. Bestu kveðjur frá okkur Palla, Þórunn

  3. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir góðar kveðjur. Ég óska ykkur þess sama. Áin átti eftir að vaxta mikið eftir að ég tók þessa mynd í morgun en þegar ég hafði tækifæri til að fara aftur með myndavélina þá var orðið of dimmt.
    Já rétt er það, að gott er að vera inni í hlýju húsinu sínu þegar veðrið er í svona ham.

Skildu eftir svar