Jólatími í sundlauginni.

Það var síðasti dagurinn í vatnsleikfiminni fyrir jól og að vanda voru aðalljósin slökkt, en rauð og græn ljós voru kveikt í kíraugunum ofan í innilauginni og vörpuðu þau jólalegri birtu á vatnsflötinn. Svo var komið fyrir fljótandi borði með skrauti og nammi úti í grunnu lauginni.
Eftir að við höfðum puðað smávegis í djúpu lauginni færðum við okkur beint yfir í þá grunnu þar sem nammið og jólaöl beið okkar. Að vanda sungum við saman eitt jólalag og svo var mikið spjallað og hlegið og að lokum var pakkaleikur. Að mæta í jólatímann í sundlauginni er eitthvað sem ekki má sleppa fyrir jól. Það er margt annað sem ég vildi frekar vera án. Félagsskapurinn í vatnsleikfiminni er svo frábær og alltaf jafn skemmtilegt.

Veðrið var þannig seinni partinn, að ekki gátum við Selfoss fjölskyldan farið í stúdentsveisluna í Kópavoginum. Svei mér þá mér finnst alltaf hittast svo á þegar maður ætlar í bæinn á mannamót, að eitthvað sé að veðri og færð. Eins og mér finnst gaman að fara á mannamót. Nú er bara að sjá hvernig gengur að komast á næsta mannamót sem verður á Þorláksmessu – en spáin virðist ekki neitt skárri næstu daga.

————————————————

Ég er búin að fá lokaðan hornskáp fyrir tölvuna svo nú er ég bara í skápnum. Mér sýnist samt á öllu , a.m.k. klukkunni, að nú sé tími til kominn að koma út úr skápnum og í rúmið. Ég segi því Góða nótt og sofið rótt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Jólatími í sundlauginni.

  1. Sigurrós says:

    Mikið er nú gott að þú skulir vera komin út úr skápnum 😉

  2. Mamma says:

    Inni í skáp, lok, lok og læs.
    Þaða er bara verst að skápurinn góði seyðir mig alltaf til sín aftur og aftur, líka þegar ég á að vera að skúra, skrúbba og bóna. Það er nefnilega svo gaman að gá öðru hvoru hvort bloggvinirnir eru að miðla nýjum fréttum eða hvort einhver postur er í pósthólfinu.
    En þú getur þakkað fyrir það Sigurrós mín að mamma kemur alltaf alveg út úr skápnum fyrir nóttina og frábært að geta nú lokað allt tölvudótið inni þegar það er ekki í notkun.

  3. Guðlaug Hestnes says:

    Gleðileg jól
    mín kæra. Takk fyrir góð skrif á þessu ári. Held áfram að fylgjast með. Jólakveðja úr Hornafirði.

Skildu eftir svar