Haframjöl ???

Fyrir viku las ég fyrirsögn í einu af dagblöðunum okkar. Fyrirsögnin hljóðaði svo: "Haframjölið vinsælla en sandur" Greininni fylgdi m.a. mynd þar sem börn sátu á gólfinu fyrir framan bala sem þau voru að moka úr. Undir myndinni stendur: "Haframjöl er miklu hollara en sandur."

Það runnu á mig tvær grímur og ég velti því fyrir mér hvort börnin væru látin borða sand. Ekki óraði mig að um væri að ræða að börnin væru látin leika sér með haframjöl í staðinn fyrir sand.

Þessi frásögn var um einn af þeim leikskólum sem fylgja svokallaðri "Hjallastefnu" Síðan er í greininni sagt: …"Innileikvöllurinn er ætlaður til að brúa bilið yfir í það að fara út að leika, … Mörg börnin eru svo nýfarin að labba að þau hafa kannski aldrei labbað í skóm. Þau eru klædd í útiföt og æfa sig að fara út að leika án þess að lenda í vindhviðum og regni sem auðveldlega feykja þeim um koll" síðan heldur greinin áfram … "Meðan við bíðum eftir sandkassanum fyllum við stóran bala af haframjöli og leyfðum börnunum að moka og leika sér með það. …"

Ég las þetta tvisvar til að athuga hvort eitthvað hefði farið fram hjá mér en það virtist vera staðreynd að börn væru látin ausa yfir sig haframjöli þegar ekki viðraði til þess að fara út í sandkassa.

Nú spyr ég. Hvað finnst ykkur um það, að börn séu vanin á það að leika sér með mat?
Ég hef nú oftar heyrt sagt við börn að þau eigi ekki að leika sér með matinn. Það eigi að bera virðingu fyrir því að hafa mat fyrir framan sig, því það sé mikið af börnum sem fái ekkert að borða og við getum verið þakklát fyrir að fá mat á hverjum degi.

Er ég nú enn eina ferðina of nöldursöm eða er eitthvað bogið við svona uppeldi á leikskóla?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Haframjöl ???

  1. Óðinn says:

    Ja hérna.
    Jú Didda mín,ég verð að segja að ég er þér fyllilega sammála,það á ekki að leika sér með matinn.
    Það kennir blessuðum börnunum bara
    virðingarleysi fyrir matnum og þess þá heldur þeim mörgu sem engann hafa.
    Og hvernig er svo hægt að æfa sig í að fara út að leika???

    Með kveðju,
    Óðinn

  2. afi says:

    Þurr þrettándi
    Er ekki betra að venja börnin við það sem koma skal? Bara spyr eins og fávís karl.

  3. Ragna says:

    Gaman
    Gaman að sjá þig í heimsókn hérna á síðuna mína Óðinn minn. Það er alltaf jafn notalegt þegar einhver kallar mig Diddu og þá veit ég að um er að ræða frænda eða einhvern sem hefur þekkt mig síðan ég var barn.
    Kær kveðja til ykkar á Bornholm.

  4. Jóhanna says:

    Skrítið að sjá þetta frá þínu sjónarhorni! En þetta er ungbarnaskóli með börnum 6mán- 18 mán. Leikskólinn er nýbyrjaður og útileiksvæðið er ekki tilbúið svo þetta var gert til að redda sér. Góð sjálfsbjargarviðleitni til að geta farið að moka með skóflu í fötu. Á flestum leikskólum er matur notaður sem efniviður á margan máta t.d. pasta, baunir (Notað í margskonar föndur), hveiti notað á ýmsan hátt til að örva snertiskyn, leikdeig (Kökudeig)sem er notað á sama hátt og leir, egg til að mála með(virkar oft eins og lakk) og svo lengi væri hægt að telja upp.

    Já ég er leikskólakennari í húð og hár, svo ég varð nú að kommenta, mátti til! Hjallastefnan er ótrúleg, full af manngæsku, gleði, kærleika og vináttu og hefur fengið viðurkenningar af ýmsu tagi. Upphafsmaður hennar fékk meira að segja fálkaorðuna í fyrra, hehehehe!

    Frá sönnum aðdáanda hjallastenfunnar 🙂 🙂

  5. Jóhanna says:

    P.S. mér finnst þú hvorki nöldursöm né að það sé eitthvað bogið við uppeldið á þessum leikskóla! Þú ert frábær eins og þú ert!

  6. Eva says:

    Smábörn troða öllu upp í sig og mér finnst bara gott mál ef haframjöl fer ofan í þau frekar en kattaskítur og annað bjakk sem leynist í sandi. Við lifum í samfélagi sem kastar fleiri tonnum af mat á haugana á hverju ári og held að það breyti litlu þótt nokkur kíló af haframjöli séu notuð til leikja.Það hlýtur að vera hægt að kenna þeim að fá sér hæfilega mikið á diskinn fyrir því.

  7. Guðlaug Hestnes says:

    mjöl…
    Haframjöl? Gott í graut. Ísland í dag með allar sínar aðferðir til að auka þroska barnanna. Hvar erum við stödd, hvernig fóru gengnar kynslóðir að í leik og starfi? Spyr sá sem ekki veit.

  8. Ragna says:

    Opnar hugann
    Það opnar hugann og fær mann til að verða víðsýnni að heyra sjónarmið annarra á málum sem grípa mann svo sterkt að maður sér ekki út fyrir sína eigin skoðun.
    Takk fyrir umræðuna.

  9. Linda says:

    Í mínu uppeldi var fast á því hamrað að leika sér ekki að matnum, því það er dýrt að lifa og ekki allir sem eiga svo gott að hafa mat á boðstólnum alla daga..
    Bara þess vegna þykir mér miður að lítil börn séu látin leika sér að mat sem kannski betra væri að senda til þjóða sem eru vanþróaðri en okkar er..
    Ég er alveg viss um að til eru önnur úrræði við leik barna en að leika sér að mat..

  10. Jóhanna says:

    Börnum í dag er líka kennt að bera virðingu fyrir matnum en það þýðir ekki endilega að það megi nýta hann til annara gagnlegra hluta. Börn áður fyrr léku sér að legg og skel sem reyndar var búið að borða af þeim matinn.
    Maðurinn minn var að lesa þessar athugasemdir og skemmti sér vel og sagði: Hrossakjöt er dýrmætasti maturinn að mínu mati, hefur engum dottið í hug að segja hestamönnum að hætta leika sér með matinn! 🙂

    Mér persónulega finnst þetta áhugaverður og skemmtilegri efniviður en tilbúin leikföng sem börn hafa gaman af í 3 daga og nenna svo ekki að leika sér lengur með þau. Börnin mín eiga óhemju mikið af leikföngum sem eru aðeins til skrauts hjá þeim. Þau hafa aðallega haft áhuga á að leika sér með kubba, liti, dýr og bækur.

Skildu eftir svar