Bóndadagur 11°frost og vindur.

Þá er nú Þorri karlinn genginn í garð og gustar um hann að vanda. Í tilefni af bóndadeginum þá óska ég vitaskuld öllum húsbændum til hamingju með daginn.

Bóndi minn fékk nú enga sérstaka meðhöndlun á þessum bóndadegi. Hann svaf af sér morgunverðinn því hann var að undirbúa sig fyrir næturvakt í nótt og pönnukökurnar með kaffinu í dag bakaði hann sjálfur. Svo þurfti hann vegna vinnu sinnar að fara í bæinn fyrir kvöldmatinn. Hann verður því að eiga dekur bóndadagsins inni þegar betur stendur á.

Okkur fannst svo fallegt veðrið eftir hádegið þegar sólin var hæst á lofti. Við ákváðum því að skreppa og skoða Urriðafoss, sem nú er næsti virkjunarkosturinn sem menn eru á sitthvoru máli um hvort eigi að virkja eða ekki. Ekki ætla ég að taka þátt í þeirri umræðu.

Það efar enginn að þarna sé vatnsmesta á landsins en fossinn sjálfur
hefur mér aldrei fundist mjög tilkomumikill enda mjög lágur. urridaf2.jpg

Það fór ekkert á milli mála hvað veðrið var fallegt þegar við ókum í austurátt. Við okkur blasti Heklan tignarleg að vanda, nú í alhvítum kjól. Sömuleiðis Þríhyrningur og Eyjaflallajökull. Það var ekki dökkan díl að sjá í öllum austurfjöllunum og sveitirnar sem við ókum í gegnum í hringferð okkar í dag var nánast öll hvít. Það sem helst setti dökka díla á landslagið voru blessuð hrossin, sem norpuðu úti í kuldanum sem var mikill því frostið var í 11 gráðum og mjög hvasst. Víðast stóðu hrossin í höm til að verjast köldum vindnæðingnum. Á einstaka stað höfðu þau fengið heyrúllu til að kroppa í en á flestum stöðum reyndu þau að krafsa eitthvað í freðna jörðina. Okkur finnst mjög dapurlegt að þau skuli ekki hafa húsaskjól í snjónum og kuldanum.

Á einstaka stað eru þó einhver smáskýli eins og okkur sýndist vera þarna,
en við vorum þó ekki viss um það hvort þetta var opið eða ekki. urrida3.jpg

Við ókum í stóran hring niður í sveitina, reyndar stærri en við ætluðum því við fórum óvart inn á aðra leið en fyrirhuguð var, en það gerði ekkert til því eins og til Rómar þá liggja allar leiðir til Selfoss.

Við heyrðum í Guðbjörgu og Magnúsi Má þegar við vorum á heimleið og það var ákveðið að þau kæmu við í kaffi. Haukur, pönnukökumeistari heimilisins, var nefnilega búinn að ákveða að baka pönnukökur með kaffinu þegar við kæmum heim.

Magnús Már og Ragnar Fannberg komu fyrstir því Guðbjörg hafði þurft að fara með Karlottu á Heilsugæsluna því hún hafði dottið illa á leið í fimleika og það var verið að mynda og búa um öklann á henni. Það er ekki alveg hægt að útiloka eftir þessa myndatöku í dag, að um öklabrot sé að ræða en til öryggis var búið um þetta eins og brot. Í næstu viku á hún svo að koma í myndatöku aftur og þá ætti bólgan að vera orðin minni og betra að átta sig á meiðslunum. Við vonum bara það besta.

———————————————–

Um fimmleytið hurfu svo allir frá mér og ég var allt í einu orðin ein í kotinu og hvað gerir konan þá? Auðvitað skríður gamla konan þá í skápinn sinn og sest við tölvuna, fer í heimsókn til vina sinna og párar eitthvað inn á sína eigin síðu. Það er nefnilega svo með þessa nýkju tækni að maður er aldrei alveg einn heima þó ekki sé aðra lifandi sálu að sjá í húsinu.

Ég ætla ekki að hafa þennan pistil lengri og ætla nú að koma út úr skápnum mínum góða og færa mig hérna fram og athuga hvort imbinn hafi upp á eitthvað að bjóða.

Gangið hægt um gleðinnar dyr og búið ykkur vel í kuldanum.

Góða helgi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Bóndadagur 11°frost og vindur.

  1. Jóhanna says:

    Góða helgi
    Enn og aftur fallegt blogg hjá þér!
    Takk fyrir það og hafðu góða helgi kæra bloggvinkona

  2. Svanfríður says:

    Æi já, blessaða netið getur stytt manni stundirnar oft á tíðum.
    Fallegar myndirnar þínar en kuldaleg eru hrossin, greyin. Það er gott að eiga sjálfur húsaskjól í kulda sem þessum. Ég hugsa alltaf til þeirra sem heimilislausir eru þegar vetrarríkið ræður..að eiga kannski bara dagblað til þess að halda á sér hita er ömurlegt og gerir mig dapra. En hvað um það, ekki get ég bjargað heiminum þannig að ég kveð í bili.

  3. Þórunn says:

    Vetrarstilla
    Það má segja að landið okkar er ekki lengi að skipta um ham, stundum sér ekki út úr augunum fyrir snjókomu og svo koma dagar eins og myndirnar þínar sýna. Afar friðsælir en kuldalegir.

  4. Ragna says:

    Glugga og myndaveður.
    Já, þetta var sannkallað gluggaveður og það beit vel í kinnarnar þá stuttu stund sem maður fór útfyrir til að taka myndirnar, en það sést auðvitað ekki á myndunum.

Skildu eftir svar