Skrítið veður.

Ég þurfti að skreppa í bæinn í morgun og kom aftur heim uppúr miðjum degi. Mér fannst nú þegar ég var að aka eftir Svínahrauninu í morgun að veturinn væri að læðast að okkur því það var snjófjúk og grátt í fjöllum. Þegar í bæinn var komið var hinsvegar ágætisveður. Um það leyti sem ég ætlaði heim þá hringdi Haukur og sagði að ég skyldi fara varlega því það væri komið svo vont veður fyrir austan. Það var hinsvegar besta veður á leiðinni heim, fyrir utan smá rigningu sem var komin í bænum rétt áður en ég lagði af stað en minnkaði eftir því sem nær dró Hellisheiðina. Á Selfossi var komið besta veður. Síðan hringdi Sigurrós til mín um sexleytið og þá var svo brjálað veður hjá henni að stórt gasgrill sem þau eru með á svölunum fauk upp og lokið rifnaði svo til alveg af með festingum og öllu svo hún segir að það sé ónýtt. Jói var ekki kominn heim og hún reyndi að fara út til að reyna að bjarga grillinu inn en þá réð hún ekkert við hurðina sem fauk svo illa upp að hún skemmdist. Æ, hvað ég finn til með þeim það er svo andstyggilegt að verða fyrir svona. Líka óvíst hvort tryggingar bæta þetta. Þeir eru nú svo lagnir við að koma sér undan að borga.


Að öðru leyti var þetta góður dagur hjá mér. Þegar ég hafði lokið erindi mínu fór ég til Eddu Garðars og Jóns og fékk þar þessa líka fínu súpu og brauð í hádeginu. Nammi, namm, og takk Edda mín ef þú sérð þessar línur. Svo kom ég við hjá tengdamömmu og Ingabirni. Mér fannst svo langt síðan ég hef litið inn hjá þeim. Maður fer svo sjaldan í bæinn.


Ég á von á tíðindalausu kvöldi. Haukur er farinn í bæinn að vinna. Líklega verð ég aðallega í því að berjast við að halda mér vakandi yfir imbanum í kvöld. Þessu lýkur því hérmeð í dag

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar