Seint að vori – snemma að hausti.

Ég skrapp til Reykjavíkur í dag til þess að hitta tvær vinkonur mínar þær Ingunni og Birgit. Birgit hringdi í fyrradag og sagði að nú ættum við að hittast á föstudagsmorguninn. Hún sagðist vera búin að skoða veðurspána og sæi ekki að ég hefði neina afsökun fyrir því að koma ekki því það væri sumarfærð. Það var nú ekki eins og ég vildi hafa neina afsökun því það er alltaf jafn gaman að hitta þær. Við hittumst alltaf reglulega á meðan ég bjó í bænum en ég hef ekki alltaf verið tilbúin að keyra í bæinn í vetur. Til mín hinsvegar koma þær bara á sumrin því það þarf að fara austur yfir fjall Undecided og það er svoldið mál.
Ég get ekki annað en hlegið að því með sjálfri mér og reyndar með vinkonunum líka, að þær koma ekki nema seint að vori, á sumrin eða snemma á haustin á Selfoss. Ég hinsvegar sem kem ein hérna að austan á að geta komið hvenær vetrar sem er og geri það í flestum tilfellum. Ég fór meira að segja með rútu í bæinn um daginn til þess að komast í saumaklúbb því það hafði snjóað svo mikið að ég þorði ekki á Jazzinum. Það er bara gaman að þessu. Ég man svo sem sjálf þegar ég bjó í Reykjavík þá kom systir mín að austan í hvernig veðri sem var en við fórum helst ekki austur nema í góðu veðri. Þessi hugsunarháttur er bara eitthvað sem fylgir borgarlífinu.

Það stendur ýmislegt til um helgina hjá okkur svo ég veit ekki hvenær ég kemst í að blogga næst.

Hamingjan felst í því að vera hluti af
tilverunni í stað þess að standa utan við hana.
Þessa speki ætla ég að hafa í huga um helgina:.

Góða helgi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Seint að vori – snemma að hausti.

  1. Anna Sigga says:

    Góð speki!
    Maður ætti að lifa eftir þessu á hverjum degi ;)!

  2. afi says:

    Borgarbörn.
    Það er sko allt annar handleggur fyrir landsbyggðarfólkið að skreppa í bæinn í misjöfnum veðurm. Ekki er hægt að ætlast til að borgarbörnin hætti sér út í hvaða veður sem er. Við eigum nóg með að fóta okkur á fölinni hér heima. Hvað þá á heiðum uppi.

Skildu eftir svar