Baðferðin eftirminnilega.

Ég var að kíkja yfir dagbókarfærslurnar mínar þegar ég sá að ég birti aldrei þessa færslu svo ég skelli henni bara á ykkur núna þó nokkuð sé um liðið síðan þetta gerðist.  

Ég sagði ykkur frá raunum mínum á ljósastofunni um daginn. Núna hef ég sem betur fer fengið skýringu á þeim vandræðagangi mínum, því þegar ég kom í seinni tímann þá var mér sagt að fara ekki í bekk númer 4 því hann væri bilaður. Þegar ég spurði hvað væri að þá sagði stúlkan að það væru óvirkar stillingarnar í honum og hann væri fastur með viftuna á hæstu stillingu.  Mér létti mikið – þetta var þá ekki bara af því ég væri svona vitlaus að kunna ekki að stilla bekkinn.  Þetta var á fimmtudegi. Það sem ég segi frá hér gerðist á föstudegi, daginn eftir. 

Haukur var að fylgjast með einhverju í sjónvarpinu sem mig langaði ekkert að horfa á svo mér datt í hug að fara í gott slökunarbað á meðan. Ég kveikti á kertum, lét renna í baðið og lét lítið handklæði ofaní (lærði það í NLFÍ- æðislega notalegt að dýfa því í heitt vatnið og draga yfir sig).  Nú var allt tilbúið að stiga ofaní dýrðina. Þá datt mér í hug að gera eins og Guðbjörg mín gerir og hafa með mér "pocket" bókina sem ég var að lesa og lesa í notalegu baðinu, en það er nokkuð sem ég hef ekki  vanið mig á að gera í baði.  Ég er með grind yfir baðkarið þar sem hægt er að hafa sápu, þvottapoka og eitthvað svoleiðis á og sá að þar gæti ég lagt frá mér bókina ef ég nennti ekki að lesa þegar til kæmi.  Ég  sótti því bókina og lagði hana síðan á grindina þegar ég var komin ofan í og búin að koma mér fyrir.

Þegar ég var hinsvegar nýkomin ofan í baðið þá heyrði ég og fann að vatnið var farið að minnka. það er eitthvað svo stutt keðjan sem tappinn er festur í að ég hef rekið tærnar í keðjuna þegar ég kom mér fyrir svo tappinn hefur farið úr. Það var ekki um annað að ræða en koma fjárans tappanum í aftur. Ég lagði því frá mér bókina á grindina góðu og færði hana síðan ofur varlega framar, svo ég gæti náð að teygja mig eftir tappanum. Þetta gekk nú allt vel og tappinn komst í, en þegar ég var búin að  færa mig aftur til að geta lagst út af í baðið og var að teygja mig eftir handklæðinu til að breiða yfir mig þá rakst ég í fjárans grindina svo bókin fór á bóla kaf ofan  freyðibaðið.  Þrátt fyrir það að ég átti aðeins eftir ólesnar svona 30 blaðsíður í bókinni sem er nærri 800 blaðsíður og átti ekki bókina sjálf, því Guðbjörg hafði lánað mér hana, þá fékk ég svo óstjórnlegt hláturskast þegar ég veiddi rennblauta bókina upp úr baðinu, að ég ætlaði aldrei að geta hætt að hlægja.

Ég skreiddist síðan upp úr baðinu og reyndi að þerra bókina en sá að hún yrði sko ekki lesin næstu daga ef þá nokkurntíman.

Hér er svo mynd af bókinni góðu þegar ég var búin að þurrka hana.

bokin1jpg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Baðferðin eftirminnilega.

  1. Sigurrós says:

    Það að lesa í baði krefst þjálfunar frá unga aldri 😉 en reyndar aldrei of seint að byrja! 🙂
    Er nokkuð viss um að þú hefur prísað þig sæla að þetta var bók frá Guðbjörgu en ekki frá hinni dótturinni 😉 hehe

  2. Guðlaug Hestnes says:

    Hvaða…
    bók var þetta mín kæra? Það skiptir höfuðmáli! Þessi frásögn er bara fyndin, og huggulegheitin fyrir bí. Kveðja

  3. Svanfríður says:

    Veistu-það er ekki oft sem ég skelli upp úr en þú fékkst mig til þess nú-þó ég viti vel að ekki eigi að hlæja yfir óförum annarra…en ég spyr eins og mamma-hvaða bók var þetta? Vonandi ekki einhver sem er erfitt að bæta. Góðar kveðjur, Svanfríður sem ætlar í bað með bók.

  4. Linda says:

    Æjæjæjæ.. ansans óheppni er þetta..
    það er þetta með huggulegheita plönin.. þau virðast bara aldrei ganga upp.. Alveg sama hvað það er, þó ekki sé bara nema setja á sig naglalakk, þá máttu vera viss um að síminn hringi, einhver bankar og þú rekur fingurna í eitthvað og allt er ónýtt.. grætaðmorgni..

    Bestu kveðjur
    Linda

  5. Ragna says:

    Kaldhæðnislegt.
    Já, það er kaldhæðnislegt að nafnið á bókinni er „With no one as withness“ eftir Elisabeth George. Ég þurfti ekki að bæta bókina og Guðbjörg fyrirgaf mér, en henni fannst ég mikill klaufi að geta ekki lesið í baði. Hún er nefnilega alvön, las meira að segja oftast fyrir próf í baði – enda fiskur.

Skildu eftir svar