Staðfestingin.

"Sko þetta vissi ég" sagði Haukur þar sem hann sat og las Moggann við morgunverðarborðið í gærmorgun.

Í Mogganum á bls. 23 blasti við stór fyrirsögn "Hófleg áfengisneysla gegn gigt". Fyrsta málsgreinin er þannig:
"Heilsusamleg áhrif hóflegrar áfengisneyslu geta náð til ákveðinnar tegundar gigtar, að því er ný ransókn sýnir. Þetta kemur fram á vef Daily Telegraph." …..

Svo heldur greinin áfram og fjallar um þessa merku rannsókn sem sýnir að hófleg áfengisneysla hafi bólgueyðandi áhrif og geti minnkað gigtarverki.

Haukur sat sem sé þarna með pálmann í höndunum. Hann hefur nefnilega svo oft sagt við mig þegar ég er slæm af gigtinni og sef illa, að ég eigi að fá mér rauðvínsglas eða sherrystaup áður en ég fari að sofa því þá muni ég örugglega sofa betur.   Svo þegar ég segist alls ekki þora að gera það að einhverri venju því þá gæti ég orðið alkoholisti. Þá bara skellihlær hann og segir að þá verði nú flestir alkoholistar.

Ég held ég láti nú reyna eitthvað meira á sannleiksgildi þessarar greinar áður en ég fer að þessum ráðum. Hinsvegar viðurkenni ég alveg að manni líður vel eftir sherrystaup – en á hverju kvöldi?

Nú á ég bara eftir að komast að því hvort minn hefur nokkuð átt þátt í birtingu þessarar greinar – til  sönnunar kenningunni 🙂

Svo kemur það sem ég fletti upp í bókinni góðu
1000 ástæður hamingju og gleði .

Allt sem getur aukið manninum sjálfsvirðingu
eykur velfarnað hans.
—————–

Góða helgi öll nær og fjær.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Staðfestingin.

  1. Magnús Már says:

    Skál
    Skál tengdamóðir sæl. Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta – og samkvæmt þessu fleiri líffæri og líffærakerfi. Ánægjulegar fréttir.

  2. afi says:

    Hikk, kikk
    Jæja nú líst afa á. Bara sjúss á hverju kveldi. En ef það læknar gigtina, er það bara allt í stakasta.

  3. Ragna says:

    Samsæri.
    Aha, mér sýnist á öllu að karlpeningurinn hafi gert með sér samsæri um að gera mig að kvölddrykkjumanneskju.

Skildu eftir svar