Litla yndislega stúlkan í Arnarsmáranum heimsótt.

Ég var í Arnarsmáranum í dag. Haukur fór í bæinn til þess að vera í kosningapartíi hjá Alcan.  Mér var reyndar boðið lika en datt ekki í hug að sitja þar hóstandi eins og mæðuveik rolla,svo ég kaus að vera hjá Sigurrós, Jóa og litlu prinsessunni á meðan.  það var líka langþráð að fá að vera aðeins með elskunni litlu.  Það er nú ekki hægt að hugsa sér rólegra barn. Hún bara drekkur og sefur síðan yfirleitt í svona fjóra tíma og  opnar þá augun og mamma notar þá tækifærið og gefur henni aftur að drekka.  Svo fær hún sér vitaskuld mun lengri lúr á nóttunni til þess að mamma geti sofið aðeins meira.   Er það ekki einmitt svona sem ungbörn eiga að vera fyrstu dagana.

Í dag kom ljósmóðirin og kenndi þeim að setja hana í bað. Núna eru börnin ekki böðuð fyrr en þau eru að verða vikugömul, svo að fósturfitan fái að fara vel inní húðina.  Amma á Selfossi var því svo heppin að fá að vera viðstödd fyrsta baðið.

Mín sýndi nú allar þær kúnstir sem hún gat í þessu fyrsta baði sínu. Hún byrjaði á því að sýna magainnihald sitt og ældi í baðið, en það var hægt að bjarga því frá að fara í vatnið. Stuttu seinna ákvað hún að skjóta stórri slummu úr ristli sínum svo nú varð að bjarga henni snarlega upp úr, en hún átti ekki von á því og mótmælti kröftuglega og til að leggja áherslu á að hún væri virkilega sár yfir því að fá ekki að vera lengur í þessu hlýja notalega baði þá endaði hún þessa fyrstu baðferð sína með því að pissa í handklæðið þegar átti að fara að þurrka henni.  Það er gott að vita að þrátt fyrir öll rólegheitin leynist talsvert skap.

Nú erum við Haukur fyrir nokkru komin heim aftur. Ég var eitthvað svo upprifin að ég bara gat ekki farið að sofa og fór því í það að koma myndunum sem ég tók í dag inn í albúmið mitt. Þær sjást hér.  Svo eru Sigurrós og Jói auðvitað búin að taka fullt af myndum sem hægt er að skoða hér.

Nú eru marsafmælin hjá dætrum mínum niðurröðuð þannig:
Litla Sigurrósardóttir 10. mars, Karlotta 19. mars, Guðbjörg 20. mars og Ragnar Fannberg 26. mars. Var einhver að tala um ákveðinn fengitíma í þessari fjölskyldu?

Nú verð ég að koma mér í rúmið enda löngu kominn svefntími.

Góða helgi allir nær og fjær.

Úr bókinni góðu kemur lesning helgarinnar.

Bros, aðeins ætluð mér –
sérstaklega þessi einlægu-
færa birtu og yl.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Litla yndislega stúlkan í Arnarsmáranum heimsótt.

  1. Anna Sigga says:

    Frábær pistill!
    Knús og bros til þín.

  2. Linda says:

    Hún er nú meiri drottningin sú litla.. svo falleg..
    Mikið vildi ég gefa til að vera í þessum sporum..

    Bestu kveðjur yfir hafið elsku Ragna..

  3. Svanfríður says:

    Það er mikið um að vera í mars hjá þinni fjölskyldu…það er gott og alltaf gaman. Gott að heyra að litlu dömunni vegni vel og allt virki vel:)

  4. Yndislegar myndir
    Hún er svo gullfalleg litla ömmustelpan, til hamingju enn og aftur, svo gaman að fylgjast með svona viðburði og bestu kveðjur til foreldrana með þökk fyrir að leyfa öðrum að gleðjast með þeim…ahhh hvenær verð ég amma!

  5. Rakel says:

    Til hamingju með ömmustelpuna! Sigurrós benti á myndirnar þínar og ég mátti til með að kíkja! Takk fyrir það!
    Hún er svo sæt! ….

Skildu eftir svar