Afmæliskveðja – og veðrið, nema hvað.

Fyrst óska ég Guðbjörgu, frumburði mínum , hjartanlega til hamingju með afmælið. Þó árin séu orðin nokkuð mörg, þá man ég það eins og gerst hafi í gær, þegar ég eignaðist hana á Fæðingarheimilinu í Reykjaví hjá Huldu Jensdóttur. Það var yndislegt að geta fengið að fæða á þeim stað og það var dekrað við mann þar til á áttunda degi, en þá fór maður heim með litla krílið sitt.  Pabbarnir voru bara heima í rólegheitunum, eða í vinnunni á meðan konur fæddu á þessum tíma og komu svo þegar allt var um garð gengið.  Það var heldur ekkert til þá sem hét feðraorlof og afskaplega takmarkað fæðingarorlof fyrir konur – ef nokkuð.  Minn maður sem var lögg.endurskoðandi, var í mikilli vinnutörn á þessum árstíma og hafði rétt svo tíma til að sækja okkur, koma okkur heim, stoppa svona í tæpan klukkutíma og þurfa þá að rjúka aftur til vinnu.  Ég hætti hinsvegar í minni vinnu og var heima í nokkur ár en var svo heppin að vera með bókhaldsvinnu sem ég gat unnið heima.  Já það er margt breytt í dag.

Yfir í annað.

Maður var aldeilis heppinn að vera ekki á ferðinni til Reykjavíkur í dag í þessu brjálaða veðri sem var á leiðinni.  það hlýtur að vera óskemmtileg reynsla að lenda í slíku ferðalagi. Hún sagði líka konan, sem var við Litlu Kaffistofuna þar sem sjónvarpsfréttamaður ræddi við hana, að þeir sem hefðu komið  þar að, bæði austan frá og vestan, hefðu verið bókstaflega í losti af hræðslu.

Haukur var alveg rólegur hérna fyrir austan í dag, feginn og fullviss um að hann ætti ekki að byrja að vinna fyrr en aðra nótt. Ég fór þá að spá í að samkvæmt því þá yrði hann á kvöldvakt á laugardaginn en ekki dagvakt eins og við vorum búin, af sérstökum ástæðum, að finna út.   Vaktaplanið var nú tekið til gaumgæfilegrar athugunar og viti menn hann á að vinna í nótt. Hann er ekki öfundsverður af því, því hann fór ekki héðan fyrr en eftir kvöldmat þegar veðrið fór að slota, og var ekkert búinn að undirbúa það að vaka í alla nótt. Sem betur fer, þá fer nú þessum vaktaferðum að ljúka og ekki þörf á því að fara á milli hvernig sem viðrar.  

Ég er enn að kljást við kvefið sem situr fast og hopar hvergi þrátt fyrir hvert sýklalyfið af öðru.  Ég var að byrja á sterkum Prednisolon sterakúr í dag, sem vonandi rekur endahnútinn á allt þetta vesen. Ég gat svo sem sagt mér það sjálf að best hefði sjálfsagt verið að byrja bara á sterunum því þá hefði ég getað sleppt hinu eitrinu. Ég enda nefnilega alltaf á þessum sterum þegar ég fæ slæmt astmakvef sem ekki vill fara.

Nóg um það.

Bráðum komið miðnætti og best að safna orku fyrir morgundaginn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Afmæliskveðja – og veðrið, nema hvað.

  1. Gurrý Guðfinns says:

    Það er leiðinlegt að heyra að þú þurfir að taka þessi sterku lyf, vonandi tekur ekki langan tíma að vinna á þessu kvefi. Bestu kveðjur og óskir um skjótan bata!

  2. Þórunn says:

    Hamingjuóskir
    Innilega til hamingju með öll afmælisbörnin. Ég á líka góðar minningar frá dvöl á fæðingarheimilinu. Það var toppurinn á þessum árum að fá að vera hjá henni Huldu, hún hafði alveg einstaklega ljúfa nærveru, sem var mikils virði þegar maður þurfti að dvelja svona lengi að heiman. Já margt er breytt síðan þá.
    En lýsingarna á veðrinu á Íslandi, það er erfitt að gera sér þetta í hugarlund þegar maður unir sér í góðu vorveðri hérna. Kærar kveðjur frá okkur Palla, Þórunn

Skildu eftir svar