Á Selfossi.

Það er af Jazzinum mínum að segja að hann er að hressast eins og eigandinn. Þeir komu hérna galvaskir Haukur og Stefán nágranni með startkapal eftir að Haukur var búinn að sitja í góðu yfirlæti í kaffi hjá náfrannahjónunum okkar í langan tíma. Í annarri tilraun hrökk Jazzinn í gang og var látinn mala hérna fyrir utan í langan tíma til að hlaða sig. Ég fór svo með hann á verkstæðið klukkan fjögur og þar var hann mældur upp hátt og lágt en ekki fannst nein skýring á krankleikanum.  Við komum því hérna heim aftur og nú á að sjá til hvort þetta gerist aftur því þá þarf einhverja meiri rannsókn.  Nú er sem sé spurning hvernig ástandið verður í fyrramálið. 
Hér á Selfossi hef ég einungis kynnst notalegri og góðri þjónustu þegar ég hef þurft á henni að halda og er þá í raun sama hver þjónustan hefur verið sem leitað er eftir. Það brást heldur ekki í þetta skiptið því verkstæðismaðurinn sagði að ef þetta kæmi fyrir aftur þá skyldi ég bara hringja á verkstæðið og hann kæmi bara heim til mín og bjargaði málunum. Nú er bara spurning hvort ég læðist ekki út á eftir og láti loga ljós í bílnum í nótt því þetta var svo myndarlegur verkstæðismaður sem bauðst til að koma heim til mín ef mig skyldi vanta stuð. Já, svona getur nú lífið verið gott á Selfossi.

Ég ætla að bæta því við að við skruppum í kaffi og tertu á Kaffi Krús í dag. Haukur, sem var á undan inn, stökk beint að borði í salnum og vafði þar konu örmum. Ég sá þá að þarna var komin Jóhanna Borgfjörð mamma hans Magna en hún var í heimsókn hér sunnan heiða og var að fá sér kaffisopa með mömmu sinni og frænku.  Það er alltaf gaman að hitta Borgfirðinga og hvílík tilviljun að mér skyldi allt í einu detta í hug að skreppa á kaffihús á Selfossi og hitta þar fólk frá Borgarfirði eystri. Já því segi ég það  Selfoss virðist vera aðal staðurinn.

Best að koma sér í rúmið. Ég var steinsofnuð fyrir framan sjónvarpið áðan, reif mig upp og fór í tölvuna til að slökkva á henni , en var áður en ég vissi af farin að bulla eitthvað hérna inn á síðuna mína.  –  ÉG HLÝT BARA AÐ VERA BÚIN AÐ FÁ HEILSUNA AFTUR.   Ég segi bara Góða nótt og dreymi ykkur vel.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar