Góður dagur i safnið.

Það var yndislega fallegt veður hér sunnan heiða í gærdag. Haukur dreif sig upp á Hellisheiði á skíði  en ég fór heldur lengra því ég átti erindi í bæinn. En mikið var fallegt að aka yfir Hellisheiðina í þetta sinn. Sólin skein á snjóbreiðuna sem var eins og þeyttum rjóma hefði verið sprautað yfir allt.  Það hafa ekki komið margir svona fallegir dagar í vetur. Þrátt fyrir snjóinn á Hellisheiðinni þá finnst mér einhvern veginn að ekki fari á milli mála að vorið sé í nánd.  Þetta er svona einhver tilfinning sem gagntekur mann og fyllir gleði og tilhlökkun.

Áður en ég færi að sinna þeim erindum sem voru skrifuð á miðann hjá mér þá byrjaði ég auðvitað borgarferðina á því að fara í Kópavoginn og heimsækja litlu fjölskylduna í Arnarsmáranum.  Þar var auðvitað allt í ró og spekt eins og vant er og elsku litla Ragna Björk svaf værum blundi þegar amma kom. Amma var nú samt svo heppin að hún svaf ekki allan tímann sem amma stóð við svo það náðist að knúsa hana aðeins.

Hér eru þær mæðgur Sigurrós og Ragna Björk.

maedgur.jpg

Þegar ég loks gat slitið mig úr Kópavoginum skellti ég mér í borgarstressið og lauk erindi mínu.  Mikið var ég nú fegin þegar ég ók burt úr stressi og mengun borgarinnar, aftur austur yfir Hellisheiðina  sem nú var böðuð vestursólinni.

Í gærkvöldi komu svo loks fréttir af ferðalöngunum Karlottu og Oddi Vilberg sem lögðu af stað til Ameríku á sunnudaginn,  en við höfum verið að bíða eftir fréttum af þeim. Þau eru nú komin til Florida með pabba sínum og fjölskyldu hans og verða í rúmar tvær vikur. Það verður spennandi hjá þeim að upplifa allt það sem Disney-garðurinn og fleira býður uppá. 

Um helgina verður orðið heldur tómlegt hjá þeirri gömlu í Sóltúninu því Haukur er að byrja í vinnusyrpu aðra nótt og Grundartjarnarfjölskyldan leggur af stað fyrir helgina norður heiðar. Ekki efa ég að tilhlökkun ríkið hjá ömmu og afa Ragnars Fannberg í höfuðstað norðurlands að fá að vera með litla snúð í nokkra daga.

Best að rífa sig frá tölvunni  og drífa sig á bókasafnið og sjá hvort það leynist einhver hekublöð. Heyrumst seinna.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Góður dagur i safnið.

  1. Þórunn says:

    Eyjólfur er greinilega að hressast.
    Það er engin spurning Ragna mín að þú ert öll að hressast enda annað ekki hægt þegar veðrið er fallegt og tækifæri gefst til að knúsa svona yndislegt kríli. Það er einhver heimspekileg ró yfir Rögnu Björk, alveg makalaust að sjá hvernig hún sefur í fanginu á hverjum sem er. Það virðist ekkert raska ró hennar. Yndislegt barn þetta. Það verður örugglega tómahljóð í húsinu hjá þér næstu dagana. En það er líka ósköp gott að vera einn með sjálfum sér inn á milli. Þú veist að þú ert velkomin í kaffi til mín þegar þér dettur það í hug. Góðar kveðjur frá okkur Palla, Þórunn

Skildu eftir svar