Gleraugu í röngum umbúðum.

Við skruppum í bæjarferð í dag þrír ættliðir, Amma, Guðbjörg og Karlotta. Amma var voða spennt að sækja tvenn ný gleraugu, sem áttu að vera tilbúin í Kringlunni. Fyrir nokkru kom nefnilega tilboð frá Gigtarfélaginu með gleraugnaávísun upp á 24.000 krónur og  það munar um minna.  Það var því drifið í að endurnýja gömlu gleraugun og nú skyldu herlegheitin sótt svo hægt yrði að spóka sig með ný gleraugu og nýja og betri sjón. 

Ekki vildi þó betur til en svo að umgjarðirnar um gleraugun höfðu víxlast í pöntuninni svo að þau sem áttu að vera sólgleraugu voru í umgjörð þeirra sem ekki áttu að vera það og öfugt. Sá sem afgreiddi mig upphaflega var erlendis en stúlkan sem var við afgreiðslu í dag var svo frábær og sagði strax að ég skyldi bara taka nýju gleraugun og nota þau í ferðinni minni og koma síðan og tala við eigandann þegar ég kæmi heim aftur og fá þetta leiðrétt. Það tók nefnilega tvær vikur að fá þetta afgreitt því glerin þurfti að panta erlendis frá svo ekki væri möguleiki að fá ný fyrir næsta fimmtudag. Ég spurði hvort ég ætti ekki að greiða inná eða setja tryggingu ef ég tæki gleraugun núna, því ég var ekkert látin greiða inná þegar ég pantaði. Nei, hún vildi það alls ekki og þegar ég spurði hvort ég ætti ekki að kvitta fyrir að taka við þeim þá vildi hún það ekki heldur og sagði bara að ég ætti að hafa samband við þau aftur þegar ég kæmi heim og vonandi gæti ég notað þau þennan tíma þrátt fyrir mistökin.  Mér finnst allt í lagi að ég gefi upp nafnið á þessu gleraugnafyrirtæki en það er Pro- Optik í Kringlunni.  Þegar ég valdi gleraugun var mikið að gera í versluninni og vegna veikinda var aðeins einn að afgreiða og sá hinn sami þurfti að mæla sjónina, nokkuð sem hann gerði mjög vel þrátt fyrir að fólk biði eftir afgreiðslu fyrir framan og síminn væri að hringja.  Mér finnst þessvegna sjálfsagt að fyrirgefa svona mistök og ekki síst fyrir það hvað stúlkan tók vel á þessu og leysti málið allavega í bili.  

Við létum þetta ekkert spilla Kringluferðinni okkar og settumst niður og skoðuðum hina Kringlufarana á meðan við fengum okkur hressingu því það tilheyrir nú svona bæjarferðum sveitafólksins að fá sér hressingu á kaffihúsi.

Auðvitað lá leiðin úr Kringlunni í Kópavoginn þar sem Arnarsmárafjölskyldan var heimsótt og  sérstaklega auðvitað litla nafnan og síðan í Rúmfatalagerinn til að kaupa lítinn kodda því það eru yfirleitt svo harðir pulsukoddarnir á Spáni að ég hef orðið alveg ómöguleg í hálsinum og í síðustu slíkri ferð ákvað ég að hér eftir færi ég með minn eigin kodda. Þar sem okkar íslensku koddar taka nokkuð pláss í tösku þá fékk ég mér einn lítinn og meðfærilegan svo nú getur prinsessan á bauninni lagst til svefns án þess að finna baunina í gegnum koddann. Það er hins vegar helst til mikið mál að hafa líka dýnu með sér, enda verður prinsessan á bauninni að hafa eitthvað til að kvarta yfir.

Ég kveð ykkur komin aftur heim á Selfoss og hér kemur spekin úr bókinni góðu. Ekki veit ég hvort þetta er einhver ábending til mín en hvað um það

Hamingjan felst í því að vera
ánægður með það sem maður á.

Svo mörg voru nú þau orð.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Gleraugu í röngum umbúðum.

  1. Þórunn says:

    Gleraugu
    Maður á hiklaust að nefna fyrirtæki sem gera vel við viðskiptavinina og gera gott úr mistökum. Mikið varstu heppin að fá þessa greiðslu upp í gleraugun.
    Kær kveðja að sunnan, Þórunn og Palli

Skildu eftir svar