Það var eitt

sem ég fylgdist með af miklum áhuga Kringlunni á laugardaginn þangað til ég var dregin í burtu.

Það var verið að sýna nýju ryksuguna sem ryksugar sjálf og á svo sjálf að fara í hleðslutækið þegar hún hefur lokið verkinu. Mér fannst hvílíkt spennandi að fylgjast með þessu fyrirbæri. Búið var að girða af svæði og strá þar bæði rúsínum og hrísgrjónum og svo snarsnerist kvikindið um allt gólf, blés og sópaði frá veggjum svo hún næði betur að soga ruslið upp. Ekki sýndist mér þetta vera neitt skipulega framkvæmt en hún gleypti og gleypti. Ég hafði þó auga á hrísgrjónum sem hún var að komast að þegar hún þeyttist eitthvert annað. Ég ætlaði ekki að fara frá þessu fyrr en ég vissi hvort hún kæmi aftur og sogaði upp hrísgrjónin en hún var upptekin í öðru horni og á endanum drógu þær Guðbjörg og Karlotta mig í burtu því auðvitað höfðumvið engan tíma til að hanga yfir þessu. Ég veit sem sé ekki ennþá hvort hún tók hrísgrjónin eða ekki.  Þessi gripur kostar eitthvað um 50 þúsund.

Maður hefði nú einhverntíman þegið svona grip, þegar maður var með fleira heimilisfólk, mikla vinnu og stress. Nú þarf ég svo sem ekkert að kvarta því þegar Haukur er hættur að vinna (hann er í síðustu vinnusyrpunni), þá fær hann það veigamikla hlutverk á heimilinu að sjá um vélar og tæki – þar með ryksuguna.  Og það eitt er víst, að hann myndi taka hrísgrjónin upp strax en ekki þeytast út í annað horn og ætla svo að taka þau seinna í annarri umferð. Minn maður er nefnilega vandvirkur og ekkert að flaustrast áfram. Ég þarf því ekki að kosta fimmtíu þúsunköllum fyrir einhvern gervikall til að ryksuga hjá mér þegar ég á einn alvöru heima, sem er miklu betri – og hananú.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar