Halló, halló

Þá er ég nú komin heim í íslenska vorið úr algjörri Paradís á Tenerife þar sem allt er í blóma, veðrið alltaf í svona 24 gráðum og aldrei rignir. Þetta með rigninguna er svolítð sérstakt. Það var stundum skýjað en skýin safnast saman yfir háu fjöllunum og þar kemur regnið niður en þarna á suðurhlutanum hefur t.d. aðeins komið dropi úr lofti þrisvar sinnum síðan í mars í fyrra. Ég las það í einhverjum bæklingi þarna að þetta væri eini staðurinn á jörðinni þar sem svona skilyrði væru, hinsvegar rignir oftar í norðurhlutanum. Ég á nú eftir að leyfa ykkur að sjá myndir af þessum yndislega stað. Ég hef hinsvegar ekki getað notað tölvuna síðan ég kom heim, vegna tæknilegra erfiðleika sem vonandi eru nú að baki.

Í þessum töluðu orðum er ég að bíða eftir því að Sigurrós og litla Ragna Björk vakni, en þær gistu hjá okkur um helgina. Það var nefnilega frænkuboð hjá henni systur minni hérna í hinum endanum á húsinu á laugardaginn og  ekki hægt að sleppa þeim mæðgum strax heim því ömmu og afa finnst þau svo lítið hafa getað kynnst þessum nýja yndislega einstaklingi. Jói þurfti því að fara til baka  tómhentur á laugardaginn  en ég ætla nú að skila þeim mæðgum aftur til hans í dag. 

Þetta fyrsta blogg mitt eftir nærri mánaða útivist verður hvorki fugl né fiskur, heldur bara svona til þess að láta vita að ég er komin heim og hef verið að hugsa til ykkar. Fyrstu dagar eftir heimkomu úr svona ferðalögum fara alltaf í eitthvert stress, taka upp úr töskum, þvo, strauja, fara yfir póstinn.  Blaðafjöllin fá þó líklega að eiga sig í bili – eða alveg. Það tæki langt fram á sumar að lesa sig í gegnum öll þau ósköp.

Ég er fegin að tölvumálin skuli vera komin í lag og næstu daga set ég inn myndir úr ferðinni og spjalla meira við ykkur.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Halló, halló

  1. Þórunn says:

    Velkomin heim
    Sæl og blessuð og velkomin heim. Ég er búin að koma hér við í marga daga án árangus, þóttist vita að þú værir komin heim en nú skil ég af hverju ég komst ekki inn á síðuna þína. Hlakka til að sjá myndir og heyra ferðasöguna. Bestu kveðjur til ykkar Hauks frá okkur Palla

  2. Svanfríður says:

    Velkomin heim. Mikið er gott að heyra frá þér aftur. Hlakka til að sjá myndir.

Skildu eftir svar