Bernskuhugleiðingar um Klepp og sjúklingana þar.

Kleppur hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga enda á staðurinn 100 ára afmæli um þessar mundir. Þar sem ég er gamall Kleppari, þ.e.alin upp í Kleppsholtinu, þá á ég margar minningar um þennan stað og fólkið sem þar dvaldi upp úr miðri síðustu öld.

Það var svolítið sérstakt að alast upp svona nærri Kleppi og núna þegar ég rifja upp þennan löngu liðna tíma þá átta ég mig á því hvað fordómarnir gegn þeim sem voru sjúklingar á Kleppi um miðja síðustu öld voru gríðarlegir.  Aðallega fólust fordómarnir í hræðslu, hræðslu við að hafa nokkuð saman við "þetta fólk" að sælda og hræðslu um að þeir gerðu börnunum eitthvað. Okkur börnunum var stranglega bannað að koma nærri  "þessu fólki" því það gæti verið hættulegt.

það var talsvert um að sjúklingarnir væru á ferli í hverfinu og kunnum við deili á nokkrum þeirra. Þarna var kona Pálina að nafni sem gekk um allar götur í leit að sígarettustubbum og oft stóðu nánast bara fæturnir uppúr þegar hún stakk sér í ruslatunnurnar hjá leigubílastöðinni Hreyfli sem þá hafði aðstöðu við Sunnutorg. Aðstaðan fólst í því að það var sími á tréstaur og í hann fengu bílstjórarnir upphringingu ef einhvern vantaði akstur og þar var einnig stór tunna sem notuð var til að henda í rusli og tæma úr öskubökkum bifreiðanna. Pálína var sérkennileg með stutt ljóst pönnuklippt hár og tautaði alltaf fyrir munni sér og maður tók stóran krók framhjá Sunnutorgi þegar hún var þar að athuga hvað hefði komið úr öskubökkunum á leigubílunum.

Önnur kona var oft á rölti um Kleppsholtið en ég man ekki nafnið á henni. Hún bar alltaf með sér eitthvað sem var bundið inn í stóran hvítan dúk eða lak. Seinna heyrði ég að þessi kona hefði misst bæði mann og son í hafið og við það hefði hún misst vitið og eftir það hefði hún gengið um með fötin þeirra í þessum böggli sem hún skildi ekki við sig.

Svo var það hann Valdi, en við vorum hræddust við hann. Ekki hef ég hugmynd um af hverju við vorum svona hrædd við hann og aldrei heyrði ég hvað hefði komið fyrir hann. Ég man bara að stundum þegar við vorum á skautum á tjörninni þar sem nú er Sundahöfn, þá heyrðist kannski allt í einu einhver hrópa "Valdi er að koma". í slíkum tilvikum beið maður ekkert eftir að sjá Valda því það var eins og sprengju væri varpað og allir þustu af stað til að koma sér í burtu áður en Valdi kæmi. Aldrei sá ég þennan Valda nálægt því hræðslan var svo mikil að ef maður svo mikið sem hélt að það væri hann sem sást í fjarlægð þá faldi maður sig frekar í næsta húsagarði en þora að verða á vegi hans. Ég hef oft hugsað um það síðan hvort þessi maður hafi nokkuð það til unnið að við þyrftum að vera svona hrædd við hann.

Hinsvegar hafði hann pabbi minn ástæðu til að verða hræddur þegar hann réð sig tímabundið á Klepp til afleysinga sem vaktmaður á næturvöktum. Það voru margir sjúklingar saman á stofu, mig minnir að pabbi hafi talað um að þeir væru 12 eða 14 og í stofunni væru bara sjúkrarúmin þeirra og eitt borð og stóll fyrir vaktmanninn. (Ég vona að ég sé ekki að fara með rangt mál en svona man ég þetta). Svo ég víki nú aftur að honum pabba mínum þá hugðist hann nota tímann til að skrifa, en á þessum tíma var hann með Tómstundaþátt barna og unglinga í útvarpinu Fyrstu næturnar var allt í lagi, en svo einn morguninn kom pabbi heim og leit út eins og hann hefði lent í slagsmálum og það reyndist rétt vera. – Um nóttina, þegar allt hafði verið komið í ró og hann hélt að sjúklingarnir væru sofnaðir, hafði hann hafist handa við að skrifa þáttinn. þegar hann hafði skrifað nokkra stund þá var allt í einu komið aftan að honum þar sem hann sat og ráðist á hann með barsmíðum og spurt hvern fjandann hann væri að skrifa um sjúklingana. Hann náði svo eftir nokkra stund að koma á ró með því að segja þeim hvað hann væri að skrifa og bauð þeim að lesa það sem á blöðunum stæði. Eftir þetta báru sjúklingarnir mikla virðingu fyrir honum og töluðu um hann sem vin sinn og vaktirnar sem eftir voru gengu mjög vel. Pabbi talaði um að auðvitað hefði hann strax fyrsta kvöldið átt að segja þeim að hann ætlaði að sitja við skriftir og hvað það væri sem hann væri að skrifa svo það myndi ekki valda misskilningi en sjúklingarnir voru búnir að fylgjast með honum skrifa í nokkrar nætur þegar árásin var gerð.

Þetta er nú bara smá innlegg í Kleppsumræðuna. Í dag er erfitt að skilja hvernig málum var háttað á þessum tíma og að það hafi virkilega verið svona sem búið var að þessu blessaða fólki sem var svo óheppið að fá sjúkdóm sem enginn virtist í raun vita hvernig ætti að meðhöndla, algjört tabú var að tala um og fólk almennt hrætt við þá sem sjúkir voru.

Sem betur hefur þjóðfélagið okkar mikið breyttst hvað þetta varðar með auknum skilningi og meiri fræðslu. Fordómarnir hafa líka minnkað, en það þarf enn að gera betur, miklu betur, til þess að geðsjúkdómar verði flokkaðir eins og aðrir sjúkdómar og heilbrigðiskerfið bregðist ekki þessum sjúklingum og leiti ætíð bestu úrræða fyrir þá. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Bernskuhugleiðingar um Klepp og sjúklingana þar.

  1. Linda says:

    Þetta var skemmtileg lesning Ragna, mér þykir alltaf gaman að lesa um gamla tímann og hversu hlutirnir hafa breyst, svo segirðu líka svo vel frá að það er engu líkara en ég hafi sjálf séð konuangann á kafi í ruslatunnunni..

    En það er sko alveg rétt hjá þér að fólk var og er ljótt við annað fólk sem á bágt.. Þá líklega út af hræðslunni og óvissunni í kringum sjúkdóminn..

    Ég man nú að ekki fyrir svo allt of löngu, þegar Rockville á Miðnesheiði var talinn kjörstaður sem meðferðarheimili og á meðan umræðan stóð sem hæst, voru íbúar Sandgerðis og Keflavíkur með þvílíka fordóma og þóttist viss um að ef þetta yrði meðferðarheimili, þá myndi djöfullinn leika lausum hala.. að innbrotafaraldur og eiturlyf myndu fljóta um nágrennið..
    En það var annað hvort, það vissi enginn af þessu fólki sem þar bjó því það fór ekkert fyrir því..
    En hvernig aganum var háttað þarna innan girðingar er svo efni í allt aðra sögu.. ;)..

    Bestu kveðjur

Skildu eftir svar