Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja

og ekki er betra að kenna gömlum konum að nota skynsemina. Í síðustu færslunni minni páraði ég niður allt sem ég hafði verið að áorka í kvennagöngu og dansi og var alveg rosalega ánægð með mig. Svo þegar 18. júní var runninn upp þá var eins og ég væri komin á hundraðasta aldursárið. Stirð og stíf í öllum skrokknum og leið allan daginn eins og ég væri með 40°hita. Mældi mig meira að segja en var auðvitað ekki með kommu. Já svona hagar vefjagigtin sér og aldrei skal maður læra það að allt á sér takmörk. Hæfileg hreyfing og hæfileg hvíld, forðast allt álag bæði líkamlegt og andlegt.
Hversu oft er ekki búið að tyggja þetta í mann. En ég verð nú bara að segja það, að þó svo maður fái timburmenn þó maður drekki ekki dropa en dansi aðeins of mikið, þá vil ég bara taka út slíka timburmenn og njóta á meðan á nefinu stendur – eða öllu heldur á fótunum stend.

Ég var nú sem betur fer orðin hressari í gær svo eftirköstin ætla ekki að vera langvarandi í þetta skiptið, og í dag hlakka ég mikið til því nú liggur leiðin í Sælukot þar sem ég ætla að taka á móti saumaklúbbnum mínum eftir hádegið og við ætlum að eiga skemmtilegan dag í sveitinni og grilla svo áður en við höldum heim í kvöld.

Ég ætla bara að vona að ég gleymi ekki að taka myndi en ef ég man eftir því þá skelli ég kannski einni eða tveimur inn á vefinn minn.

Bókin mín góða um hamingjuna segir að:

Kraftur tilfinninganna er orka

gagnslaus þar til hún er tekin í brúk.

Njótum öll dagsins

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja

  1. Svanfríður says:

    Mér finnst þetta réttur hugsunarháttur hjá þér vinkona. Gott að gigtin beit þig ekki allt of fast í þetta skiptiðl.

Skildu eftir svar