Saumaklúbbur í Sælukoti.

Ég átti eftir að halda síðasta saumaklúbb vetrarins og það var ekki seinna vænna en að drífa það af fyrir Jónsmessu. Ég ákvað að halda klúbbinn í Sælukoti fyrst það var nú komið fram á mitt sumar, og heppnin var með okkur því þrátt fyrir mikil ferðalög á fólki á sumrin þá voru allar á suðvesturhorninu og til í slaginn.

Ég útbjó veitingarnar hérna heima og lagði svo af stað með herlegheitin í sveitina um morguninn  en síðan var von á þeim svona upp úr klukkan tvö.  Það var ákveðið að ég kæmi niður að Hellu og hitti þær skvísur þegar þær kæmu, annarsvegar úr Reykjavík og hinsvegar úr Fljótshlíðinni,  svo þær villtust nú ekki á Rangárvöllunum í leit sinni að Sælukoti.

Ég var komin snemma niður á Hellu og ætlaði að heimsækja tvö systkini tengdamömmu sem búa á dvalarheimilinu Lundi.  Ég sá hinsvegar að tíminn væri nokkuð naumur fyrir það, svo ég fór bara í bíltúr um Hellu. Ég ók um götu sem annar bróðir tengdamömmu hefur búið við í fjölmörg ár. Ég hef ekki komið þangað í áratugi en þar sem ég ók eftir götunni þá var ég að spá í hvort ég myndi þekkja húsið þeirra aftur.  Allt í einu sá ég kunnuglegt andlit í eldhúsglugga og var þá komin að rétta húsinu. Ég heilsaði því upp á þau hjón Eddu og Hjalta en ég var ekki búin að vera þar nema örskamma stund þegar ég fékk tilkynningu á símann minn – þær skvísur voru komnar til Hellu.  Hvernig fór maður eiginlega að hérna áður en Gemsarnir urðu allra eign – eins og maður gerði nú grín að þeim sem töldu sig svo mikilvæga að þeir þyrftu að fara allra sinna ferða með síma á sér. Nú er ég ásamt öllum 10 ára og eldri á Íslandi komin í þann hóp. 
En nú er ég komin langt út fyrir efnið.

Við hittumst sem sé allar skvísurnar á Hellu og skelltum okkur beint í sveitasæluna. Veðrið lék við okkur, við gátum grillað og undum okkur vel í Sælukoti  fram á kvöld.

Auðvitað þurfti að sýna þeim umhverfið

saumo_saelokoti1.jpg

svo létum við fara vel um okkur og
ræddum landsins gagn og nauðsynjar

saumo_saeluk2.jpg

Það var mjög skemmtilegt að halda þennan saumaklúbb í sveitinni.  Ég var svo komin hérna heim um hálf ellefu um kvöldið sæl og glöð yfir að vera búin að halda kúbbinn og ánægð með hvernig til tókst.

Hér eru myndirnar mínar. Þær hefðu mátt vera fleiri, en gamla konan þurfti auðvitað að hugsa um fleira en bara að taka myndir í þetta sinn.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Saumaklúbbur í Sælukoti.

  1. Edda says:

    gaman saman
    Blessuð Didda mín og takk fyrir síðast. Þar sem enginn hafði lagt orð í belginn mátti ég bara til. Við skemmtum okkur svo vel, það var svo gaman, þessvegna skil ég ekki hvað við erum alvarlegar á myndunum þínum, við hljótum að hafa stillt okkur svona upp fyrir myndatökuna.

  2. Didda says:

    Takk sömuleiðis Edda mín, þetta var svo skemmtilegt hjá okkur. Ég var jafn hissa og þú þegar ég fór að skoða myndirnar – hvar voru öll brosin?

Skildu eftir svar