Kaffiboð.

Karlotta hringdi í mig eftir hádegi í dag og sagði að okkur afa væri boðið í kaffi til þeirra en við mættum ekki koma strax því hún og mamma ættu eftir að baka kökuna. Við fórum svo um þrjúleytið og þá kom bökunarilmurinn á móti okkur og við fengum þessar líka fínu kökur með kaffinu. Karlotta var búin aða leggja á borðið og merkja á litla miða hver átti að sitja hvar. Svo að kaffinu loknu fór hún inn í herbergið sitt og kom svo út klædd í bleikan balletbol með vængi og töfrasprota og dansaði fyrir okkur. Já það er gaman að vera nýorðin 6 ára. Þetta lífgaði upp á annars drungalegan dag. Það er svo ótrúlega dimmt yfir þegar það er svona lágskýjað og rigning.  S.l. nótt vaknaði ég um þrjúleytið og labbaði hérna inn í stofu og þá var alveg skafheiðríkt og ég fór að hlakka til að geta nú drukkið morgunkaffið á fallega pallinum mínum. Ég var þessvegna skúffuð í morgun þegar það var orðið svona dimmt yfir og rigning.Vonandi að það komi fljótlega sólardagur.


Ég læt þetta duga í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar