Það er leikur að læra

leikur sá er mér kær, að vita meira og meira, meira í dag en í gær.

Það er ekki hár aldur þegar maður er bara fjögurra mánaða en ef maður hugsar um það hversu hraður þroskinn er þessar fyrstu vikur í lífi barns þá verður maður alveg agndofa, eins og reyndar yfir sköpunarverkinu öllu.

rbj4c.jpg 

Í dag er hún Ragna Björk ömmustelpan mín fjögurra mánaða og er nú orðin heldur státin og stórubarnaleg. Uppáhaldið hennar er, þrátt fyrir mjög ungan aldur, að skoða bækur.  Hún á nú ekki langt að sækja það því báðir foreldrarnir eru bókaormar.

Því miður hef ég ekki getað fylgst eins náið með henni eins og hinum barnabörnunum mínum sem ég hef nánast hitt daglega ef svo má segja frá því að þau fæddust, en það er svona þegar maður býr í sveitinni þá eru ekki daglegar ferðir á milli. En foreldrar Rögnu Bjarkar útbjuggu auðvitað handa henni heimasíðu  og þangað kemur amma í heimsókn á hverjum degi og stundum oft á dag og dundar sér við að skoða myndir og myndbönd.
Það er svo gaman að skoða samanburðarmyndirnar við hann Herbert, dúkkustrákinn hennar Sigurrósar, sem hún batt svo miklu ástfóstri við þegar hún var lítil. Vikulega eru teknar myndir af prinsessunni með Herbert og á fyrstu myndunum voru þau nánast jafn stór en það er gaman að fylgjast með hvað mín er orðin mikið stærri enda stækkar Herbert auminginn ekkert.

rbj4b.jpg

Já sköpunarverkið er stórkostlegt og auðvitað er tölvutæknin það líka sem gerir okkur kleift að miðla upplýsingum og skoða í sameiningu myndir hvers annars.

 Er til nokkuð dásamlegra
en að fylgjast með litlum börnum vaxa og þroskast?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Það er leikur að læra

  1. Ragna Björk says:

    Takk fyrir kveðjuna, amma mín 🙂
    Mér finnst ég líka orðin svaka stór, vil bara standa þegar ég er í fanginu á mömmu og pabba og fylgist vel með öllu sem er að gerast í kringum mig.
    Mamma mín ætlar að setja inn nýja mynd á forsíðuna mína á eftir og skrifa nokkrar línur í tilefni af 4 mánaða afmælinu mínu.
    Sjáumst vonandi fljótt, amma mín 🙂

  2. Þórunn says:

    Lífið er lærdómur
    Það má með sanni segja að við erum að læra allt lífið, mikið er hún Ragna Björk áhugasöm við sinn lærdóm. Það er stórkostlegt að fá að sjá börn sín og barnabörn þroskast og verða að mannvænlegum einstaklingum. Og við þessi fullorðnu getum líka lært, til dæmis af heilræðunum úr bókinni góðu, takk fyrir að leyfa okkur að læra með þér. Kveðja til þín og Hauks frá okkur í Austurkoti

  3. Guðlaug Hestnes says:

    Nei..
    það er ekkert eins fallegt. Svo er líka flottast að hafa titilinn amma og afi!

Skildu eftir svar