Afmæli á morgun, meira að segja tvö.

Á morgun 19. júlí á hún Sigurrós mín afmæli og auðvitað fær hún mínar allra bestu afmæliskveðjur.

sigra.jpg

Hamingjan felst í því að ala barn sitt upp sem sjálfstæðan einstakling.

Það er sérstök ástæða fyrir því að ég set færsluna inn í dag en ekki á morgun en segi ykkur betur frá því seinna.  En í kvöld verður voða gaman því þá förum við mæðgur allar og tengdamamma Sigurrósar saman út að borða.

Það eru margar minningar í kringum fæðingu Sigurrósar bæði tíminn fyrir og eftir og kannski segi ég einhverntíman frá því.  En það er sorgleg saga en nú viljum við vera glöð.

Og, það er líka annað afmæli 19. júlí.  Fimm ár síðan ég flutti í Sóltúnið. Það er auðvelt að fylgjast með þeim afmælum, því við vorum að koma heim frá Portúgal  – nema hvað á afmælisdegi Sigurrósar og í stað þess að fara beint í Kleppsholtið þá var ekið austur yfir fjall.
Verktakarnir voru ekki tilbúnir með húsið  hérna á réttum tíma og ég varð að afhenda íbúðina sem ég var að flytja úr svo okkur datt í hug það snjallræði að flytja bara allt hafurtaskið í nýja bílskúrinn og skella okkur síðan til Portúgal í þrjár vikur.

Það var því alveg rosalega spennandi að koma heim úr þessari utanlandsferð og og sérstök tilfinning að aka yfir Hellisheiðina þessa nótt til nýrra heimkynna.  Það var sem betur fer búið að drösla rúminu úr bílskúrnum svo við gátum hvílt okkur það sem eftir var nætur. Mest langaði mig þó til þess þegar við komum hérna "heim" um nóttina að fara að raða upp búslóðinni, en það tók Haukur ekki í mál svo við lögðum okkur til morguns. En það voru sko spennandi dagar framundan að koma sér fyrir á nýjum stað eftir yfir 20 ár á Kambsveginum.

Það lítur svolítð öðru vísi út hérna utanhúss í dag en það gerði 19. júlí 2002.  Það var nú fyrir digital myndatökur mínar svo ég á ekki mynd í tölvunni en það er auðvelt að ímynda sér hvernig það leit út, ekki stingandi strá,  svona nokkurn vegin grófjöfnuð lóðin og ekkert meira.

(Sigurrós mín reddaði myndum af lóðinni fyrir framkvæmdir um leið og hún sá færsluna og ein þeirra kemur hér, séð út um stofugluggann þar sem pallurinn er í dag. Bara urð og grjót)

gardurinn_fyrst4.jpg

Við getum því verið ánægð með gróðurinn og græna grasið í kringum okkur, sem er nú eins og sjá má á myndunum hérna fyrir neðan.

Ég bið svo að heilsa ykkur í bili ætla að leyfa andanum að komast í smá pásu þangar til í næstu viku.

Í bókinni minni góðu blasir þessi texti við mér:

Segðu við sjálfan þig: "Enginn er lánsamari en ég."

soltun5.jpg

soltun5d.jpg

soltun5b.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Afmæli á morgun, meira að segja tvö.

  1. Hulla says:

    Eigðu gott flug Ragna mín og okkur hlakkar öllum óskaplega til að sjá þig 🙂
    Kossar og knús frá öllum hér…

  2. Guðlaug Hestnes says:

    fallegt
    er umhverfið, dásamlegt. Til hamingju með daginn öllsömul.

  3. Svanfríður says:

    Til hamingju með dótturina þótt síðbúnar séu kveðjurnar frá mér. En ég get vitnað til þess að þið Haukur hafið gert „nýja“ heimilið ykkar mjög fallegt og leið mér vel þegar ég kom inn til þín.
    Hafðu það gott, Svanfríður.

Skildu eftir svar