Litla fjólan okkar

Í fyrravor gróðursettum við litlar þrílitar fjólur í stóra trékassann hjá kirsuberjatrénu. Þær voru mjög fallegar allt sumarið, en Þegar haustaði fór að draga af þeim og á endanum var ekkert lífsmark eftir með þeim og fjarlægðum við þær þá úr kassanum.

Í vor sá ég  hinsvegar að ein agnarsmá planta var að gægjast upp úr þessum sama blómakassa og ég ákvað að leyfa henni að vera. Þar sem við fórum til Tenerife í vor þá fóru engin sumarblóm niður fyrr en við komum til baka í lok mai. Þessi litla planta hafði því góðan tíma til að sanna sig og sýna hvort eitthvað væri í hana spunnið.

það fór ekki á milli mála þegar við komum heim að þarna var um fjólu að ræða.  Sem betur fer varð ekkert af að önnur sumarblóm færu í þennan kassa aftur svo litla fjólan hafði hann út af fyrir sig og svo sannarlega tókst henni að vekja áhuga okkar og áðdáun því hún hefur breitt sig yfir allan blómakassann  í sumar, svo halda mætti að þar væru gróðursettar margar fjólur.  Mér finnst alveg einstakt að fjóla sem er sjálfsáð frá sumrinu áður skuli verða svona risastór og mikil.

Hér eru myndir af þessu einstaka blómi.

Hér sést hvernig hún breiðir úr sér í kassanum.

fjola1.jpg

og hér heldur Haukur utanum hana svo það sést vel
að hún er af einum stofni.

fjola2.jpg

og svo fær hún aftur að breiða úr sér.

fjola3.jpg

Kannast einhver við svona duglegt sjálfsáð sumarblóm?

Hamingjubókin býður okkur upp á þetta í dag:

"Við skulum vera þakklát því fólki sem gleður okkur;
það eru hinir gæskuríku garðyrkjumenn sem fá sálir okkar til að blómstra."

Góða helgi

Komum öll heil heim úr gleði verslunarmannahelgarinnar
og munum að það dregur ekkert úr skemtuninni 
þó hægt sé gengið um gleðinnar dyr.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Litla fjólan okkar

  1. Hulla says:

    Ótrúlegt blómstur :o) og bara fallegt.
    Góða helgi
    Kossar og knús héðan

  2. Svanfríður says:

    Margur er knár þótt hann sé smár.
    Góða helgi Ragna mín.

  3. Þórunn says:

    Undur lífsins
    Ef maður hefur augun opin fyrir umhverfinu þá má sjá margt kraftaverkið. Það er ótrúlegt hvað getur komið upp af einu litlu fræi. Þessi Fjóla sannar það. Líði ykkur vel, kær kveðja frá Þórunni og Palla

Skildu eftir svar