Skemmtileg ferð í boði Isal.

Það er nú meiri aumingjaskapurinn að koma því ekki í verk að blogga nema einu sinni í viku, en þannig  hefur það verið hjá mér undanfarið. Það er svo sem ekkert um það að segja né við því að gera.  En eitt er víst og það er að ég á að vera glöð yfir því að það er svo margt skemmtilegt að gerast í sumar að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að sinna heimasíðunni minni eins oft og ég vildi gera.

Verslunarmannahelgin kom og fór og þar sem Sigurrós gerði henni góð skil þá ætla ég ekki að endurtaka það en vil þó bæta því við að við heimapúkarnir höfðum það alveg ljómandi gott og það var svo gaman að  fá að leika sér svona lengi við Rögnu Björk.

Í gær vorum við í gleðskap og allsherjar veislu allan daginn.

Isal (Alcan) er nefnilega svo höfðinglegt við starfsmenn sína sem komnir eru á eftirlaun að þeir bjóða þeim árlega, núna í tuttugasta skiptið, í ferðalag.
Þar sem Haukur hætti að vinna s.l. vor þá er hann kominn í þennan hóp og fékk því fyrir nokkru boðsbréf í eina slíka ferð. Og það var ekki bara Hauki sem var boðið heldur fylgifiskinum líka.

Dagurinn hófst á því að öllum  (150 manns) var boðið í morgunmat klukkan átta.

isal1.jpg

Eftir að hafa snætt egg, beikon og tilheyrandi brauð og ávexti í mötuneytinu í Straumsvík var haldið af stað í þremur rútum í gegnum Heiðmörkina að Gvendarbrunnum þar sem kynningarfulltrúi Orkuveitunnar tók á móti hópnum og fræddi okkur um sögu Gvendarbrunna. Það er mjög skemmtilegt stöðvarhúsið eins og sjá má á þessari mynd sem tekin er í móttökusalnum niðri.

isal2.jpg 

Frá Gvendarbrunnum var haldið að Elliðaárvirkjun eða gömlu Rafstöðinni, eins og maður er nú vanur að kalla hana. Þar fengum við aftur kynningu og skoðuðum þessa gömlu rafstöð sem var byggð árið 1921 og er enn í notkun. Það var síðan mjög gaman að skoða safnið sem er þarna í öðru húsi, en þar má sjá ýmis raftæki og annað sem maður man eftir síðan á barnsaldrinum um miðja síðustu öld. Maður er nú orðið svoldið gamall ha,ha. 

isal3.jpg

Þessa tvo staði hef ég aldrei skoðað, kannski hafa þeir verið of nálægt manni til þess.

Næst var komið að rúsínunni í pylsuendanum, nema það var reyndar hvorki rúsína né pylsa sem boðið var uppá í hádeginu heldur graflax á salatblaði með dillsósu í forrétt og grillaðar lambalundir í aðalrétt á ekki lakari stað en í Perlunni.

Ekki að undra að við brosum út að eyrum.

isal4.jpg

Eftir hádegisverðinn í Perlunni var ekið að Hellisheiðarvirkjum. Þar tók kynningarfulltrúi Orkuveitunnar enn á móti okkur, nú í glææsilegum móttökusal Hellisheiðavirkjunar og eftir kynningu á virkjuninni, þá beið okkar þar á efri hæðinni glæsilegt kaffihlaðborð.

Við vorum svo komin aftur í Straumsvík rétt fyrir klukkan fimm södd og sæl, ánægð með þennan skemmtilega dag og hlökkum til næstu endurfunda.

Mér finnst þetta einstaklega höfðinglega að verki staðið og auk góðra fararstjóra þá lét Rannveig Rist sig ekki muna um að vera með hópnum allan tímann. Ég býst við að mörg og mikilvæg verkefni hafi beðið hennar, en tók hún það framyfir að vera með hópi gamalla starfsmanna í heilan dag.  Ég býst ekki við að það séu mörg fyrirtæki eða forstjórar sem eru svona ræktarleg og rausnarleg við eftirlaunastarfsmenn sína. Ég hef alla vega  aldrei heyrt talað um slíkt.  Það sem vel er gert á vitanlega að tala um og ég geri það hér með um leið og ég þakka fyrir mig.

Allar myndirnar sem ég tók í ferðinni eru hér.

————————————-

Eftirþankar:
Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað við íslendingar erum lánsamir að eiga jarðvarmann og stóru fallvötnin og hafa öðlast vit og þekkingu til þess að nýta hvorttveggja til raforku og húshitunar á svo vistvænan hátt.  Að ekki sé nú talað um besta kaldavatnið.  Við erum líka sífellt að fá viðurkenningar úti í hinum stóra heimi fyrir þessa hluti.
Auðvitað er fórnarkostnaðurinn talsverður,  en fæst nokkuð án fórnarkostnaðar.
Ég  upplifði það sem barn að rafmagnið var alltaf að fara og það litla sem var hitað í húsunum var með olíu eða kolum, og það var lítil atvinna en mikið vonleysi – ekkert álver eða annar stóriðnaður enda  ekki farið að beisla orkuna til slíks.  

Ég hugsa oft um það þegar mótmæli gegn orkuverum og iðnaði eru sem háværust að þar fari þeir fremstir í flokki, sem séu kannski á þeim aldri að þeir hafi ekki i kynnst því hvernig er að hafa ekki atvinnu, þá atvinnu sem þessir orkugjafar og iðnfyrirtæki veita í dag þúsundum manna.
Hinsvegar er ég sammála því að við hugsum vel okkar gang og rösum ekki um ráð fram.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Skemmtileg ferð í boði Isal.

  1. Þórunn says:

    Ferðalag
    Mikið hefur þetta verið góður dagur hjá ykkur. Það er sannarlega rausnasrlegt af fyrirtækibnu að bjóða í svona ferð. Ég segi fyrir mig að mér finnst mjög gott að fara stundum í rútu eða lest og sjá eitthvað nýtt, sleppa því að sitja undir stýri og njóta þess sem fyrir augun ber. Bestu kveðjur til ykkar Hauks, nú förum við bráðum að koma og hitta ykkur, eigum pantað far 23. september. Þórunn og Palli

  2. Ragna says:

    Ég var einmitt að tala um það við Hauk í rútunni hvað það væri nú notalegt að vera svona þátttakandi án þess að þurfa svo mikið sem keyra sjálfur.
    Mikið hlakka ég til að hitta ykkur í september. Ég er búin að skrifa hjá mér dagsetninguna í dagbókina í eldhúsinu.

  3. Eva says:

    Það er gott að heyra að Alcan skuli gera svona vel við starfsmenn sína á Íslandi.

    Í Ossirahéraði á Indlandi hafa 50.000 manns af lægstu stéttum samfélagsins lent á vergangi, flestir bótalaust, þegar þeir voru reknir frá heimilum sínum og bújörðum til að UIL (sem Alcan á að 45%) gæti reist álver og báxítnámur. Um 100.000 manns eiga sömu meðferð yfirvofandi. Vonandi sendir Alcan þeim Bjöggadiskinn í sárabætur.

  4. Eva says:

    innsláttarvillur leiðréttar
    Orissa, á þetta auðvitað að vera og svo sé ég að ég hef haft skammstöfunina vitlausa líka, UAIL er rétt (stendur fyrir Utkal Alumina International Ltd)

Skildu eftir svar