Ég hef bara ekki sinnt dagbókinni minni í heila viku. Ég hef líka haft í nógu að snúast þessa viku svo ég hef smá afsökun.


Guðbjörg fór í æðahnútaaðgerð, uppúr og niðrúr á báðum fótum í síðustu viku svo ég var með börnin hérna hjá mér. Um helgina voru þau svo hjá pabba sínum. Þetta hefur allt gengið vel.


Á föstudaginn kom svo Sigurrós í heimsókn. Við Sigurrós pössuðum svo sjúklinginn fótafúna og við dúlluðum okkur svo hérna, mæðgurnar á föstudagskvöldið, átum alls konar freistingar og áttum skemmtilegt kvöld.


Á laugardaginn var svo á darskránni hjá Sigurrós að heimsækja vinkonu sína, Steinunni, úr kennó en hún býr á Hellu. Það kom í ljós að hún býr í Nestúni eins og Steini gamli. Ég ákvað því að fara með á Hellu og rölti yfir til Steina á meðan þær spjölluðu saman vinkonurnar. Ég kom svo aðeins inn hjá Steinunni í restina. Við stoppuðum nú ekki lengi því við ætluðum að halda áfram að passa uppá að á sjúklingurinn færi sér nú ekki að voða. Sigurrós fór svo heim seinni partinn í gær að hugsa um sinn sjúkling. Þetta var svakalega fín og skemmtileg helgi. Vonandi kemur nú að því að Jói geti komið með austur þegar þessum blessaða skóla lýkur.


Í gærkvöldi byrjaði ég svo á bútasaumsdúk til að hafa undir jólatré. Ég saumaði eitt hjarta af sex og hélt svo aðeins áfram með það í morgun. Það er svo freistandi að sökkva sér ofaní svona verkefni en ég verð að passa að sitja ekki of lengi við í einu. Ég er að fara í flensusprautu út á sjúkrahús á eftir og þar sem veðrið er alveg guðdómlega fallegt, sól og blíða, þá ætla ég að fá mér göngutúr þangað.


Vitið þið um nokkurn sem þarf að fá leigt á Selfossi. Ég veit um raðhús sem verður til leigu í næsta mánuði. Þið kannski látið það berast ef þið heyrið um einhvern sem er að leita sér að húsnæði hér í Sæluríkinu. Ég tek það fram að ég er ekki að leigja út mitt hús. Fer ekki einu sinni úr því tilneydd.


Svo ég vaði nú úr einu í annað. Á morgun kemur hún Ingunn mágkona mín í heimsókn frá Ameríkunni. Mikið rosalega er ég búin að hlakka til að hitta hana. Hún verður hérna heima í líklega þrjár vikur. Ég er svo eigingjörn að vona að ég fái að hafa hana hérna hjá mér í einhverja daga. En það kemur nú í ljós þegar hún kemur hvernig skipulagið hjá henni er. Það vilja allir hitta hana og fá að hafa hana hjá sér.


Ætli ég skrifi nokkuð meira í dag. Ég bólgna yfirleitt og verð hálf handlama fyrsta sólarhringinn eftir þessar flensusprautur svo ég hafði fyrra fallið á að setja smá texta hérna inn. Svo þarf ég líka að sækja börnin á leikskólann og skóladagvistina því Guðbjörg má ekki keyra bílinn fyrr en í vikulokin ef allt gengur vel. Svo hér set ég punktinn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar