Hugleiðingar um vinatengsl og fleira

 

 Að eiga góða vini og vita
að þeir eru til staðar
er góð tilhugsun.

Þessa lesningu fann ég í bókinni minni góðu um hamingjuna og hún kom mér til þess að hugsa til vina minna, þeirra sem ég á í dag og hef eignast í gegnum tíðina.  

Já, fyrir utan það að eiga góða fjölskyldu þá er það góð tilhugsun að hafa í gegnum tíðina eignast góða vini  og vita að öðru hvoru er einhver sem hugsar til mín.  Ég er ekkert inni á gafli hjá vinum mínum daglega og þeir ekki daglega í heimsókn hjá mér, en  bara tilhugsunin um að  ég á vini sem ég heyri í öðru hvoru og get haft samband við þegar ég vil, það gerir mig hamingjusama.

Í dag hef ég hugsað mikið um vini mína, enda eru þó nokkur vinaafmæli í ágúst, t.d. afmæli æskuvinkonu minnar, en það að eiga æskuvinkonu er með því dýrmætasta sem hægt er að eiga.

Svo vaknaði hjá mér spurning hvort það sé nóg, að það sé góð tilhugsun að eiga góða vini, og hvort það þurfi ekki meira til.  Geri ég t.d. sjálf nægilega mikið í því að rækta vinskapinn við vini mína?  Það þarf kannski meira en að tala öðruhvoru saman í síma eða senda E-mail á milli.
Að rækta vinskap er svona álíka og að rækta hjónaband, það gerist ekkert af sjálfu sér. Allt sem á að vaxa og dafna þarf sína næringu og umhyggju  ef það á að lifa.

Þetta er nú það sem ég hef verið að hugsa um í dag.  Ég hef fundið það eftir að ég flutti á Selfoss að ég hitti ekki eins oft þá vini mína sem ég hitti þegar ég bjó í henni Reykjavík og stundum spyr ég sjálfa mig "af hverju koma ekki fleiri í heimsókn?", en um leið spyr rödd innra með mér  "ert þú dugleg að heimsækja vini þína þegar þú ferð til Reykjavíkur?".  Svarið er;  nei alls ekki nógu dugleg.  Síðan reikar hugurinn aftur í tímann.

Það var svo gaman þegar fólk bankaði uppá  og gaf sér tíma til að setjast niður smástund og þiggja kaffisopa og spjalla aðeins. Ekkert vesen – bara ánægja.

 Nú er hraðinn orðinn svo mikill og fólk er bundið í vinnu og áhugamálum frá morgni til miðnættis og hefur því ekki lengur tíma fyrir slíkt.  Nú bankar maður líka síður uppá sjálfur því  "maður gæti verið að trufla".

Ég er ekki ein um að velta þessu fyrir mér því við konurnar í vatnsleikfimininni  ræddum þetta einu sinni í heita pottinum og vorum sammálal um að það er synd  að það skuli hafa alveg lagst af, að fólk kíki í heimsókn óboðið. Við erum reyndar allar af þeirri kynslóð sem var mikið í heimsóknum hjá vinum og vandamönnum og kynntumst því að fá mikið af heimsóknum sjálfar en svo er eins og þetta hafi nánast alveg lagst af fyrir utan auðvitað nánustu fjölskylduna.  Nú þarf að bjóða fólki í heimsókn eða tilkynna sig með góðum fyrirvara ef maður ætlar að fá gesti eða líta inn hjá einhverjum og þar sem flestir hugsa á sömu nótum þá er orðið lítið um að  dyrabjallan hringi nema maður viti fyrirfram hver stendur á dyrapallinum.

Ég læt þessum hugleiðingum mínum lokið og sendi öllum vinum mínum og öðrum góðar kveðjur og endilega komið mér á óvart með því að prufa að hringja hjá mér dyrabjöllunni og vitið þið til, þið fáið örugglega góðan kaffisopa og aldrei að vita nema súkkulaðimoli fylgi með. ha,ha.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hugleiðingar um vinatengsl og fleira

  1. Svanfríður says:

    Þetta er svo innilega rétt hjá þér með vinskapinn, hann verður að rækta því ekkert kemur að sjálfu sér.
    En ég er líka sammála með að það er sorglegt að það sé orðið minna um að skreppa í kaffi…ég get svosem skilið að fólk hringi á undan sér á stærri stöðum, vegna fjarlægðarinnar því ekki er gaman að keyra lengi og enginn heima en ég sakna einmitt að hér, kemur bara enginn í heimsókn nema að honum sé boðið. Ég er eins og þú, gaman að fá heimsókn óvænt. Ég geri svolítið af þessu en það fer minnkandi, maður vill ekki trufla. Ætli þetta breytist nokkuð aftur? Ég held ekki…en mundu að ef þú kemur til Chicago, þá máttu sko alveg skreppa í kaffi hingað til mín:)

  2. Þórunn says:

    Vinátta
    Eins og talað út úr mínu hjarta, en ég get auðvitað ekki ætlast til að einhver banki óvænt uppá hjá mér, en eins og sannast með okkur tvær, þá er hægt að rækta vináttu í netinu þó fjarlægðir séu miklar. En ég er farin að finna mikið fyrir því að sambandið við gömlu vinina á Íslandi er að slitna, en ég þarf auðvitað að athuga hvort ég á þar einhverja sök, ekki nógu dugleg að skrifa. En samt sem áður þá eru ennþá nokkrir mjög tryggir vinir sem líta inn á bloggið mitt, hringja eða skrifa. En samt sem áður eru alltaf fagnaðarfundir þegar ég kem til Íslands, þá er eins og við höfum öll sést síðast í gær. En áð eiga vini er ómetanlegt. Þakka þér Ragna mín að vera vinkona. Þórunn

  3. Linda says:

    Það er sko alveg rétt hjá þér Ragna að vinátta er vinna, rétt eins og hjónaband. Maður á ekki að taka vináttu sem sjálfsagðan hlut – hún er alltof dýrmæt til þess..
    Ég viðurkenni fúslega að í nokkra mánuði hef ég ekki haft neitt samband við nokkurn frá Íslandi, nema fjölskylduna, en það er einungis mér að kenna..
    Ég held að eins og með svo margt annað, að maður áttar sig ekki á hvað maður átti fyrr en of seint..
    En að hinu, þá finnst mér sorgleg sú þróun að maður þurfi að hringja á undan sér til að poppa inn í heimsókn.. Hér í Ameríku eru það nánast óskrifuð lög að maður fer ekki í heimsókn nema að hafa hringt á undan sér og með góðum fyrirvara.. en það er mikið um matarboð og lítil smá partý út um allt, eins og til að afsaka fyrir lítið samband þess á milli..

    Hafðu það gott elsku Ragna, og hér er alltaf heitt á könnunni og uppábúið rúm, ef þér dytti nú allt í einu í hug að langa að skreppa til Groton í helgarferð..

  4. Ragna says:

    Mér sýnist það bara næst á dagskránni hjá mér að túra um Bandaríkin. Ég veit alla vega að ég má droppa inn í kaffi bæði í Chicago og Groton. Svo á ég fastlega von á að það yrði líka heitt á könnnunni hjá vinum mínum í fallega dalnum í norður Portúgal þó það sé kannski ekki alveg í leiðinni í sömu ferð.
    Nú er mál að pakka niður. „See you later“

  5. Guðlaug Hestnes says:

    heyrðu…
    mín kæra, bættu Hornafirðinum í kaffirúntinn, ávallt velkomin. Eins er það með alla hina, Portúgal, Ameríka, verið velkomin.

Skildu eftir svar