Óvænt gjöf.

Það var haldið upp á afmæli Odds Vilbergs á sunnudaginn þó hið eiginlega afmæli sé ekki fyrr en á morgun. Þetta var allrabesta afmæli eins og vera ber og myndir úr afmælinu eru hér.

Það sem kom mér hinsvegar mjög á óvart var að þegar allir voru farnir heim nema við fjölskyldan, þá kom Karlotta með fallegan gjafapoka og rétti ömmu.  Amma hélt að þetta væri eitthvað sem Oddur hefði fengið og amma ætti að skoða betur, en það voru allir eitthvað svo eftirvæntingarfullir á svipinn að amma varð eitt spurningamerki.
"Þú átt þetta sjálf" sagði Sigurrós.
"Já en ég á ekkert afmæli fyrr en í nóvember". 
"Þú átt það samt, kíktu" sögðu allir í kór.
Fyrst dró amma upp þetta kort með ömmunni í miðjunni og börnin í kring.

kort.jpg

Textinn inni í kortinu var síðan:

"Elsku amma,

Takk fyrir að vera alltaf svo góð við okkur.

Knús og kossar,

Karlotta, Oddur Vilberg, Ragnar Fannberg og Ragna Björk."

En, það var meira í pokanum, því amma dró líka upp kassa og í honum var MP3 spilari með útvarpi.  Amma varð gjörsamlega orðlaus af undrun.  Hvernig var annað hægt. 
Það var búið að setja inn á spilarann eina bók á ensku og diskinn Undir bláhimni. Síðan, þegar við vorum komin í Sóltúnið, þá sýndi Sigurrós mér í tölvunni safn af sögum og tónlist sem ég get sett inn á spilarann eftir því hvað ég vil hafa þar hverju sinni.

Það er svo skemmst frá því að segja að í morgun hlustaði ég á fyrstu 20 kaflana í bókinni "After the Fire", á meðan ég var að laga til í þvottahúsinu, kláraði að strauja og fleira sem ég hef trassað undanfarið.  Nú var þetta allt leikur einn því það var svo spennandi að hlusta á söguna á meðan.  Ég sá hinsvegar að ég mætti ekki hlusta allan daginn svo ég beitti mig hörðu upp úr hádeginu, slökkti á tækinu og skrapp í útréttingar sem ég þurfti að sinna.  En, nú ætla ég að hlusta á nokkra kafla í viðbót. –   Þetta er alveg frábært.

Elsku barnabörnin mín öll mikið þakka ég ykkur vel fyrir að vera svona góð við ömmu, það er nefnilega það, hvað þið eruð góð við ömmu,  sem málið snýst um.  Svo fá mömmurnar og pabbarnir auðvitað líka stórt TAKK.

Er ekki lífið yndislegt ?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Óvænt gjöf.

  1. Jú…
    Lífið er dásamlegt, og það er hverrar mínútu virði. Hlusta… og strauja? ummh!

  2. Linda says:

    Svakalega fallegt kortið frá krökkunum..
    Þú ert rík að eiga svona góða að..

    Bestu kveðjur

  3. Svanfríður says:

    Þetta er frábært en ég er svosem ekkert hissa því það skín af þér góðsemin og þeir sem nálægt þér eru, eru heppnir að eiga þig að:)

  4. Guðlaug Hestnes says:

    Halló…
    Hvar ertu Ragna mín? Er ekki kominn tími á smáfréttir?

Skildu eftir svar