Nú er best að hvíla sig á því að hreinsa ber og þvo ferðaföt og heimsækja aðeins heimssíðuna sína.  Mikið þóttii mér vænt um að sjá að einhverjir söknuðu mín. Það er alltaf svo notalegt að heyra það.

Það er ótrúlegt hvað tíminn hefur flogið áfram síðustu vikur og í marga daga hef ég ekki einu sinni kveikt á tölvunni. Það byrjaði nú á því að við Haukur vorum í bænum að klára að ganga frá íbúðinni hans á Austurbrúninni, því nú er kappinn kominn alveg á Selfoss og íbúðin hans leigist út frá næstu mánaðarmótum – sem reyndar er á morgun.

Á laugardaginn var fórum við á ættarmót á Hellu þar sem föðurfólk stelpnanna minna, þ.e. ættin hans tengdapabba sem var frá Geldingalæk á Rangárvöllum, hittist. það átti að byrja á því að fara í Odda og þaðan að Keldum og Geldingalæk  en við gátum ekki farið að Odda því það kom í ljós að þar var jarðarför á þeim tíma sem við ætluðum að vera þar.  En einmitt það, að það var jarðarför í Odda, varð til þess að ég hitti hann blogg-afa en hann var að fara við þessa jarðarför. Mikið var ég fegin að hann þekkti mig og kom og heilsaði því ég var ekki búin að átta mig á þessum prúðbúna manni sem kom út úr þvögunni við veitingahúsið Árhús á Hellu og gekk beint í áttina til mín  og heilsaði. Hann stakk í stúf við þá sem ég hafði verið að heilsa því hann var svo fínn en aðrir  voru bara í útivistarfötunum sínum.  Þakka þér fyrir afi að hafa komið og heilsað mér.

Strax á sunnudagsmorguninn lögðum við Haukur svo upp í ferð til Akureyrar og þaðan til Borgarfjarðar eystri.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar