Helgin sem spáð var stormi og rigningu á Suðurlandinu.

Þá er komið að því að segja frá ferðalaginu okkar um helgina. Við fórum í árlega haustferð Steinasafnafaklúbbs ISAL, en Haukur hefur verið félagi í því síðan það var stofnað af starfsmönnum ISAL fyrir einhverjum áratugum. Í ferðinni að þessu sinni vorum við 25, sem er óvenju fátt, en einhverjir höfðu forfallast. Við Haukur komum í rútuna hérna á Selfossi og þurftum því ekki að fara fyrst í bæinn.

það var ekki hagstæð veðurspáin fyrir helgina, spáð rigningu og stormi og um tíma héldum við að hætt yrði við ferðina en þetta er hörkufólk sem lætur ekki stoppa sig svo auðveldlega. Það átti að fara á laugardeginum í Álftaver og skoða gamlar rústir, vitann og fara með heyvagni og dráttarvél eftir sandinum að gömlu skipsflaki. Þegar við lögðum af stað hérna frá Selfossi þá var hinsvegar haft samband við bónda í Álftaveri og hann ráðlagði okkur að geyma  þennan áfanga til sunnudagsins þar sem allt væri rennblautt á sandinum og veður ekki gott. Þá kom einhver með þá hugmynd að fara inná Þórsmörk og skoða haustlitina ef veðrið yrði ekki skollið á þegar við kæmum á þær slóðir. Þegar nær dró var gemsinn aftur tekinn upp og nú var haft samband við skálavörð í Þórsmörk. Hann sagði að þar væri vitlaust veður og allt ófært. Þá var ákveðið að aka með Eyjafjöllunum og stoppa fyrst við Seljalandsfoss sem við gerðum og nokkrir fóru þar á bak við fossinn, síðan var ekið að Skógarfossi og gengið upp á hæðina  og góðan spöl eftir henni leiðina sem farin er inn á Fimmvörðuhálsinn og fossarnir sem voru á leiðinni skoðaðir. Síðan var gengið niður jeppaveg sem liggur þarna uppá heiðina og eftir honum niður að rútu aftur. Nokkrir urðu eftir niðri og kusu frekar að skoða safnið á meðan. Við völdum gönguferðina því okkur hefur lengi langað til  koma þarna uppá heiðina því ég hef heyrt að þar væri svo fallegt.  

Hér er einn af fossunum á heiðinni. foss3.jpg

Veðrið hélst þurrt upp á heiðina en það var orðið mjög hvasst og á leiðinni til baka fór að rigna og þegar við svo komum til Víkur þá var komið ausandi slagveður.

Þessa mynd tók ég út um gluggann á rútunni á leið til Víkur,
en hún sýnir vel hvernig viðraði á okkur.

regn1.jpg

Eftir stuttan stans í Vík þá fórum við rakleiðis að Höfðabrekku þar sem búið var að panta mat og gistingu fyrir hópinn.  Ég kaus að hafa það huggulegt þar fram að kvöldmatnum en Haukur valdi hinsvegar að fara áfram í smábíltúr í áttina inn að Þakgili. Það átti bara að vera stutt ferð en varð heldur betur lengri fyrir það að rútan festist í sandbleytu og kalla varð út trukk frá Björgunarsveitinni í Vík til að draga þá upp. Haukur, sem var viss um verða komin til baka fyrir kaffi og vildi því ekkert hafa með sér, kom ásamt hinum ekki til baka fyrr en klukkan rúmlega sex.  Hann var svo argur yfir því að hafa ekki haft með sér myndavél svo það eru engar myndir af þessu ævintýri í albúminu okkar.

Hér er Haukur kominn til baka úr ævintýraferðinni.
Herbergin þarna eru mjög rúmgóð og fín og fylgir baðherbergi með hverju þeirra.

 hofdabr1jpg.jpg

Við sem höfðum valið að vera heima höfðum það mjög huggulegt á þessu fína hóteli þarna í Höfðabrekku. Ekki veit ég til þess að neinn hafi þó notað heitu pottana enda ekki beinlínis veður til slíks.  Um hálf átta um kvöldið var svo farið yfir í veitingaskálann  og borðaður kvöldverður og síðan setið á koníaksstofunni þar og spjallað aðeins fram eftir kvöldi en það var ekkert vakað fram á nótt því allir vildu vera frískir og tilbúnir í ferðalag dagsins í dag.

Þetta læt ég duga í bili en læt seinni daginn bíða þar til ég hef meiri orku til að skrifa. Ég var nefnilega búin að skrifa alla ferðasöguna og fór svo að bakka eitthvað með bakkörinni og hef farið einum of langt og óvistaði textinn minn með myndum og öllu bara hvarf út í buskann. Ég varð því að beita mig hörðu að byrja upp á nýtt. Það er eitthvað svo glatað að lenda í að missa svona út það sem maður er búinn að gera og maður er alltaf eitthvað óánægður með þessa "töku tvö" .  Myndirnr úr ferðinni eru allar hér.

Framhald síðar.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Helgin sem spáð var stormi og rigningu á Suðurlandinu.

  1. slæmt…
    að myndavélin skyldi gleymast.. Þakgil er einn af fallegustu stöðum sem ég hef komið á. Íslenskt veður er óútreiknanlegt, en samt er hægt að hafa gaman af útiverunni og slarkinu ef menn vilja. Það gerið þið svo sannarlega. Bíð eftir framhaldinu. Kveðja úr 24 metrum!

Skildu eftir svar