Kvatt.

Í dag fórum við Haukur í Áskirkju til að vera við jarðarför gamla vinar míns hans Sigurðar Guðmarssonar.  Það var fjölmenni við athöfnina og athygli vakti að hægra megin í kirkjunni  sátu einir 40 – 50 slökkviliðsmenn í viðhafnarbúningum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þegar athöfninni lauk þá gengu þeir fylktu liði út á undan kistunni og röðuðu sér frá kirkjudyrunum og að líkbílnum og stóðu þar heiðursvörð á meðan félagar þeirra báru kistuna út í bílinn.  Þetta var mjög virðuleg og áhrifamikil  kveðja frá vinnufélögum hans.

Athöfnin var öll mjög falleg.  Á undan athöfninni voru spiluð á píanó uppáhaldslögin hans Sigga, bæði ættjarðarlög, bítlalög og fleiri falleg lög. Einsöngslagið Söknuð eftir Vilhjálm Vilhjálmsson, sem sungið var við athöfnina, sendu félagar hans í Grímsey sem þakklætisvott þeirra eyjaskeggja fyrir það sem Siggi hafði gert fyrir þá í gegnum tíðina.

Í erfidrykkjunni settumst við Haukur fyrst ein við sexmanna borð síðan komu tvær eldri konur og tveir menn sem settust hjá okkur við borðið.   Ég spurði eftir nokkra stund hvort þau væru skyldmenni?  Nei, þau voru gamlir sveitungar Tótu úr Ölfusinu og voru frá Gerðakoti sem var næsti bær við Hjalla þaðan sem Tóta er.  Ég sagði þeim þá að ég hefði verið eitt sumar á Læk, en þessir þrír bæir standa mjög nálægt hvor öðrum í þyrpingu. Frænka mín var ráðskona á Læk í allmörg ár með ungan son sinn hjá sér og borgarstelpan fékk að vera í sveit þarna hjá frænku yfir sumarið, líklega 1955.  Ég mundi að við lékum okkur stundum við strákinn í Gerðakoti sem var að mig minnir eina barnið á þeim bæ, allavega man ég ekki eftir fleirum. Sá drengur hét líka Siggi, á aldur við mig og frænda og hann var alltaf kallaður Siggi í Gerðakoti.  Ég vissi fyrst ekki að það var hann sem sat á móti mér við borðið í dag enda hafði sá ekki lagt mikið til málanna því ég var aðallega að tala við konuna sem sat við hliðina á mér og þá sem sat á móti henni. En allt í einu segir hann. Ég man alveg eftir þessu sumri sem þú varst þarna á Læk. Heitir þú ekki Didda og frændi þinn Halli. Mikið rétt Didda var ég kölluð og frændi minn Þórhallur var alltaf kallaður Halli.  Þetta fannst mér alveg einstakt og við spjölluðum lengi saman um lífið þetta sumar. Þau voru að fiska eftir hverjum ég myndi eftir á bæjunum í kring og þegar ég sagðist muna eftir gamla kallinum á Króki þá fóru konurnar að hlæja. Þær hlóu líka meira þegar ég sagði þeim af hverju hann væri mér svo minnisstæður. þannig var að einn af fyrstu dögunum mínum í sveitinni sagði bóndinn að nú væri hann að fara að leiða belju út að Króki og við Hallii ættum að koma með. Ég borgarbarnið sem aldrei hafði í sveit komið gat ekki skilið  af hverju það ætti að fara í göngutúr leiðandi einhverja belju og hvernig leiddi maður belju sem var ekki með neinar hendur til að halda í. En af stað var farið með beljuna í taumi og gengið út að Króki.  Þegar þangað var komið beið gamall maður þar með stærðar naut í bandi. Ég þarf líklega ekki að lýsa fyrir neinum því sem gerðist næst, en það var mikið hlegið að stelpuskjátunni úr höfuðstaðnum sem missti hökuna niður á bringu af undrun og vissi ekki hvað í ósköpunum gekk á. Mér var nú talsvert strítt á þessu lengi á eftir.

Það var mjög skemmtilegt að hitta þetta fólk og rifja upp með þeim fyrstu og einu sveitavistina mína.  Það á kannski ekki að tala um að það sé eitthvað skemmtilegt við það að vera við jarðarför og erfidrykkju en það er nú einhvernveginn svo að eftir alvarleikann við athöfnina er eins og það losni um spennu og fólk talar mikið saman í erfidrykkjunum. 

———————————————

Nú er þessum kafla lokið og ég býð ykkur góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Kvatt.

  1. Hulla says:

    Æ ég finn svo til með þér snúllan mín.

    Ég held að sá sem fann upp á að hafa kaffiboð eftir jarðafarir, hafi verið dálítið sniðugur.
    Auðvitað er þetta nauðsynlegt til að aðstandendur geti spjallað og minnst hins látna saman.
    Afhverju ekki að hafa gaman. Lífið heldur jú áfram og maður getur verið fullur af söknuði og sorg, en samt haft þörf fyrir að tala og brosa að ljúfsárum minningum.
    Vá hvað ég er djúp í dag.
    Hafðu það sem best elsku Ragna mín.
    Óteljandi kossar héðan og knús á hann pabba minn.

Skildu eftir svar