Gestrisni í Álftaveri.

Nú ætla ég að klára ferðasöguna okkar frá því um síðustu helgi.

Sunnudagurinn rann upp  með alveg þokkalegu veðri. Reyndar var ennþá mjög hvasst en það var mun minni rigning en á laugardeginum. Eftir góðan morgunverð á Höfðabrekku var haldið úr hlaði og nú var brunað beint í Álftaver.  Það lætur ekki mikið yfir sér landslagið í Álftaveri þó fjallalsýnin sé mikil. Ég trúi því að í góðu skyggni sé gaman að vera þarna og sjá fjallahringinn. Vegna lélegs skyggnis sáum við ekki vestar en Mýrdalsjökul en í austri mátti sjá allt að Hvannadalshnjúk. Að öðru leyti er þarna mikið sléttlendi og graslendi meira en maður hefði ímyndað sér og greinilegt að mikil uppgræðsla fer fram á söndunum þarna.  Við fórum í góðan göngutúr til þess að skoða gamlar rústir en þegr kom að breiðu fljóti sem þurfti að vaða yfir þá nenntum við því hreinlega ekki bara til þess að skoða gamlar húsarústir sem voru nokkrum skrefum frá bakkanum hinumegin.

Hér sjást þeir hraustu vaða yfir ána.
Ég hef ekki vandað mig nógu mikið við myndatökuna og myndin því of dökk.

vad1.jpg

Á myndinni sýnist áin ekki nærri því eins breið og hún var í raun og mikið rosalega fannst flestum vatnið vera mikið kalt.  Þeir sem óðu þarna yfir eiga alla mína aðdáun fyrir tiltækið.  Við gungurnar röltum hinsvegar til baka að rútunni og biðum þar eftir  kempunum.

Þegar allir voru komnir í rútuna tilkynnti fararstjórinn að hjónin í Hraungerði  hefðu haft samband við sig og boðið öllum hópnum til sín í heitt súkkulaði og það yrði því næsti viðkomustaður.  Bóndinn á þeim bæ er reyndar frændi fararstjórans en hvílík gestrisni sem mætti okkur þarna.  Vöffluilmur og ilmur af nýbökuðum kleinum barst okkur alveg út á hlað þegar við stigum úr rútunni, svo það var ekki bara súkkulaði sem boðið var uppá. Nei það voru vöfflur með rjóma og heimagerðri sultu, kleinur og konfekt, allt eins og hver gat í sig látið og indælis súkkulaði með þeyttum rjóma drukkið með.  Það var búið að dúka öll borð sem tiltæk voru á heimilinu  svo allir 25 gestirnir fengju sæti. 
Ég má til með að nefna það hvað þetta heimili var sérstakt og táknrænt fyrir steinasafnaraklúbbinn að koma þarna í heimsókn því húsmóðirin safnar hraungrýti, engu venjulegu hraungrýti heldur voru þetta ótrúlegustu skúlptúrar sem minntu bæði á fugla og önnur dýr.

Þessa kvaðst húsfreyjan kalla Maríu Mey ríðandi á asnanum,
þar sem hún situr álút með höfuðklút og heldur
greinilega á ungbarni í fanginu.   

hraunb2.jpg

Hér er síðan mynd af húsmóðurinni með einn dýrgripinn.

hraunb1jpg.jpg

Hér er enn eitt listaverkið frá náttúrunnar hendi
og sómir sá fugl sér vel við hliðina á gæsinni.

hraun3.jpg

Já það var geysilega gaman að koma þarna og margt að skoða.  Það er gaman til þess að vita að slík gestrisni sem við urðum aðnjótandi þarna skuli enn fyrirfinnast, en vera ekki aflögð eins og svo margt sem hefur orðið stressi nútímans að bráð, bæði hvað varðar tíma og rúm.  Við vorum sammála um að það væri alveg einstakt að kalla inn 25 manns með litlum fyrirvara og bjóða fram svona höfðinglegar veitingar. Ég þakka kærlega fyrir mig.

Það næsta sem við skoðuðum var viti sem var þarna syðst í Álftaveri og heitir sá Alviðruhamraviti. Enga sáum við þó hamrana  en vitinn rís á sandinum nokkru ofan við fjöruborðið og skipbrotsmannaskýli var þar við.  Við skoðuðum hvorttveggja og klöngruðumst upp alla mjóu bröttu stigana upp í topp á vitanum. því miður voru rúðurnar svo óhreinar af seltu að ég náði ekki að taka mynd út á úfinn sjóinn.

Móttökunefnd beið okkar við vitann og hafði opnað hann svo
við gætum komist upp. Ég varð að fá að taka af þeim mynd því
þeir voru eitthvað svo orginal og krúttlegir þessir gömlu bændur
úr sveitinni, sem biðu þarna í gamla jeppanum sínum.

hraun5.jpg

Eftir heimsóknina í vitann og að útsýnisskífu á leiðinni til baka var haldið heim á leið.  Ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð og ánægjuleg þó veðurútlit hafi nærri því verið búið að blása hana af.  Það er enginn verri þó hann vökni – sérstaklega í góðum félagsskap.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Gestrisni í Álftaveri.

  1. afi says:

    Góð minning.
    Þessi ferð á eftir að lifa í minningunni um ókomin ár.

  2. Ferðin hefur verið skemmtileg, og enginn er verri þótt hann vökni. Karlarnir sætir!

Skildu eftir svar