Langar til að vita.

Þar sem ég er enginn enskusérfræðingur, þrátt fyrir það að ég geti sæmilega bjargað mér á ensku í tali og rituðu máli,  þá langar mig til þess að vita hvort orðasambandið "að axla ábyrgð"  þýðist beint yfir á ensku.

Tilefnið er nefnilega það,  að ég heyrði og sá í sjónvarpinu frá ræðu sem Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra var að halda á erlendri grund og þar sagði hún þessa setningu:

"Iceland seeks to shoulder the responsibility…"  og íslenska þýðingin lét ekki á sér standa á skjánum  "Ísland vill axla ábyrgð …"

Mér krossbrá þegar ég heyrði þetta og svo fór ég að skellihlæja því ég hef aldrei nokkurn tíman heyrt þetta notað svona á ensku. Nú langar mig til þess að fá álit ykkar enskusérfræðinganna, þó svo að það geri mig að aula ef þetta reynist eftir allt saman  algeng málþýðing á þessu hugtaki.

Svo vendi ég mínu kvæði í kross – Then I turn my poem into a cross – eða þannig sko og set hérna fyrir neðan mynd  sem ég tók af þeim Ragnari Fannberg og afa Hauki þar sem afi var búinn að setja litla snúð upp á háan málarastól sem tilheyrði pabba mínum á sínum tíma.

afi_snudur.jpg

Nú er að fletta upp í bókinni góðu. Þetta vill hún að við hugsum um núna 

Spurðu sjálfan þig:
"Trúirðu á sanna hamingju?"
Ef þú gerir það, því skyldirðu´
þá ekki taka henni tveim höndum.

Njótið helgarinnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Langar til að vita.

  1. Svanfríður says:

    Ekki veit ég hvert samhengið er en ég myndi sleppa þessum „shoulders“ og segja bara Iceland would be responsible for…..og svo framvegis. En ég er enginn sérfræðingur þannig að…

  2. Svanfríður says:

    Ég spurði Bert hvort þetta væri notað í enskri tungu og hans svar var; i guess you could but I’ve never heard it nor used it“

  3. Ragna says:

    Já Svanfríður mín það voru einmitt þessar „shoulders“ sem trufluðu mig. Mér finnst þetta eins og að segja: „Now there won’t do any mitten takes.“ Nú duga engin vettlingatök. Ég á heila grínsyrpu af svona hugtökum þýddum beint úr íslensku yfir á ensku sem ég fékk send um daginn og mér finnst þetta einhvernveginn sóma sér vel þar.

  4. Magnús Már says:

    Shoulder responsibility
    Þetta virðist nú vera til í ensku. Með því að gúggla þetta kemur ýmislegt upp. Sem dæmi má taka þessa setningu: „China, Japan Shoulder Greater Responsibility for Peace, Development“. Og á öðrum stað þetta: „Credit Rating Companies Must Shoulder Some Responsibility …“. Imba kerlingin slapp sem sagt með skrekkinn, en kómískt hefur verið að hlusta á ýmsa íslenska stjórnmálamenn ávarpa Allsherjarþingið í gegnum tíðina.

  5. Ragna says:

    Úps!
    Manni hefnist fyrir það að gera grín að öðrum en þó er huggun harmi gegn að enskukennarinn þurfti að fara í Google til þess að finna eitthvað sambærilegt. Það er svona smá sárabót fyrir frumhlaupið. Ég get bara ekki að því gert að mér fannst þetta hljóma eins og hjá þeim Spaugstofumönnum þegar þeir taka sig til í útlenskunni. Líklega hef ég bara verið í svona góðu skapi.

  6. Kári says:

    Nálægast þessu í enskri tungu tel ég vera: „To take responsibility“ en svo hafa sumir sagt um aðra hluti „I got a monkey on back“ Sem þýðir t.d. ég er í vandræðum eða í klípu 🙂 Svo að segja „I have responsibility’s on my shoulders“ Væri tæknilega allt í lagi að segja 🙂

  7. Ragna says:

    Þetta mun allt vera fullkomlega eðlilegt en er aðallega notað þegar rætt er um politík. Allt í lagi að velta svona fyrir sér, en nú hef ég verið kveðin í kútinn og loka því umræðunni um að axla ábyrgð á ensku.

Skildu eftir svar