Hefðbundnar eða óhefðbundnar lækningar – hver á að dæma?

Pétur Tyrfingsson sálfræðingur var gestur Kastljóssins á mánudagskvöldið og fór mikinn þegar hann gerði lítið úr störfum þeirra sem stunda höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð og reyndar yfirfærði hann þetta á alla þá, sem stunda það sem í daglegu tali er kölluð óhefðbundin læknismeðferð.

Það mátti skilja það sem hann sagði svo, að þarna væri eingöngu verið að plata fólk og hafa af því peninga. Þeir sem þetta stunduðu gætu ekki lofað neinni lækningu, gagnstætt því sem þeir sem störfuðu innan almennu heilbrigðisstéttarinnar gætu gert.   – Bíddu nú við!  geta læknar og sálfræðingar (sbr. P.Tyrfingsson) lofað því að maður fái bót meina sinna ef maður fer til þeirra?  það er þá eitthvað alveg nýtt. Ég vissi ekki betur en að læknar gætu aldrei LOFAÐ því að sjúklingur læknist í þeirra meðförum, hinsvegar gera þeir sitt besta til þess að svo megi verða.  Sama er að segja um þá sem stunda óhefðbundnar lækningar, þeir segja jafnan að þessi meðferð dugi sumum en kannski ekki öðrum. þeir reyna líka sitt besta en valið er þitt og engu er lofað. 

Ég verð nú að segja eins og er að mér fannst Pétur alveg hræðilega einstrengingslegur og hrokafullur og hann gerði með orðum sínum mjög lítið úr móðurinni sem hafði komið í fréttum á undan Kastljósinu, en  þar sagði hún frá marktækum mun til hins betra á einhverfum syni sínum eftir að hann fór í slíka meðferð.  Ég reikna ekki með því að sú móðir hefði óskað eftir  því að fá að miðla til landsmanna góðri reynslu sinni, ef hún hefði farið með drenginn í einhverja platmeðferð sem eingöngu hefði kostað hana peninga en árangur ekki verið neinn.

Ástæða þess að ég vil ekki heyra þeim hallmælt sem leggja sig alla fram og hafa sótt mörg og dýr námskeið, hvort sem er í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð, nálastungum eða öðru sem verða mætti til þess að koma öðrum til hjálpar.  Ég er nefnilega ein þeirra sem nota þessa þjónustu og þeir sem hafa fylgst með blogginu mínu  (t.d. hér) hafa oft heyrt mig tala um hvað einmitt þessi þjónusta hefur gert mér gott.  Þegar allt er í óefni og gigtin að ólmast, þá eru það nálastungurnar og höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferðin sem hjálpa mér.  það er mikill munur að geta fengið svona meðferð í stað þess að gleypa bara fleiri og fleiri pillur, verkjapillur, róandi eða hvað það nú er sem er yfirleitt  sá fyrsti kostur sem blessuð læknavísindin bjóða upp á.  Ekki vil ég þó gera lítið úr læknunum og þeirra pillum, því ekki læknast allt með nálastungum og höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. En þegar það er hægt að lina kvalir í líkamanum og hjálpa fólki til að geta  sofið á nóttunni án þess að það þurfi að lifa á sterkum lyfjum, þá finnst mér alla vega ekki spurning um það hvorn kostinn ég vel.

Mér finnst mergurinn málsins vera sá, að hver og einn geti valið sér þá meðferð sem gagnast honum best.  Ég er svo heppin með heimilislækninn minn hérna á Selfossi að hann er víðsýnn og hefur stutt mig í því að reyna aðrar úrbætur, eins og t.d. nálastungur o.fl. þegar því verður við komið og veikindin þess eðlis, í stað þess að gefa eingöngu ávísun á lyf.

Ég gæti auðvitað haldið endalaust áfram því þetta er mér hjartans mál.
Ég vil geta leitað til þessara óhefðbundnu aðila þegar ég er slæm af verkjum og svefntruflunum af því ég VEIT OG HEF REYNT AÐ ÞAÐ HJÁLPAR MÉR þó það hjálpi kannski ekki öllum, en ég þoli ekki þegar fólk, eins og Pétur Tyrfingsson geysist fram og gerir þá að ómerkilegum fjárplógsmönnum sem reyna að hjálpa öðrum með óhefðbundnum lækningaaðferðum. Mér finnst alveg óþarfi þegar fólk setur sig á svona háan hest og útilokar allt annað en það stendur fyrir sjálft.

Eru það ekki sjúklingarnir sjálfir sem eiga að dæma meðferðaraðilann þegar upp er staðið, hvort  sem hann er hefðbundinn eða óhefðbundinn?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Hefðbundnar eða óhefðbundnar lækningar – hver á að dæma?

  1. Guðbjörg says:

    Já þetta virkar
    það er alveg víst, bæði nálastungur og höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferð! Bestu kveðjur frá konunni sem stundar þessar „skottulækningar“ :o)

  2. Ragna says:

    Já Guðbjörg mín Stefáns, það er alltaf svo gott að koma til þín þegar ástandið er slæmt og geta síðan svifið alsæl heim aftur.
    Gaman að þú skulir hafa ratað hérna inn og séð pistilinn minn í dag. Vonandi smelltirðu á (t.d. hér) í textanum og sást gömlu færsluna mína.

  3. Ragna says:

    Ég sé að Ómar Ragnarsson hefur sömu sögu að segja og ég um það sem Pétur Tyrfingsson kallar svo fjálglega skottulækningar. Greinin hans er hér http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/326368/

  4. Svanfríður says:

    Læknar ættu að vera kátir með að sjúklingar sem kannski ekki fá bót meina sinna hjá þeim, fái hana annarsstaðar.

  5. Húmbúkk…
    nei!… ekki ætla ég að dæma… been there, done that upp á góða íslensku. Við skulum ekki fordæma neitt, hver og einn reynir að finna hvað honum er fyrir bestu þegar allt „löglegt“ þrýtur. Spjaldkveðjur!

  6. Kristín Steingrímsdóttir says:

    sammála
    Sæl
    Ég var að leita að góðri uppskrift af franskri súkkulaðiköku og rakst þá á skrif þín um ummæli Pétur Tyrfingssonar. Ég er sammála þér þó svo að ég hafi ekki mikla reynslu af þessari meðferð persónulega, en ég hef heyrt mjög marga dásama þetta og efast ég ekki um að þetta hjálpar mörgum. ann hefði betur slepp því að tjá sig um þetta með þessum látum. Kveðja Kristín

Skildu eftir svar