Vikan á enda.

Hvernig væri nú að heilsa aðeins upp á dagbókina sína sem hefur verið látin afskipt í nokkra daga.  Ekki er það nú af því að ekkert hafi verið að gerast þessa vikuna.

Á miðvikudaginn byrjuðum við að mála sjónvarpsholið. Það er nefnilega löngu kominn tími á allsherjarmálningu innahúss. Reyndar var ég aðallega í þessu sjálf því Haukur er kominn í aukavinnu og hefur að mestu verið bundinn í henni  þessa viku. Á fimmtudaginn var hinsvegar alveg frí hjá okkur. Við fórum eftir hádegið í bæinn, byrjuðum í Nornabúðinni og hittum Evu dóttur Hauks og síðan lá leiðin í Kópavoginn  að hitta Sigurrós og Rögnu Björk.

godum_felagsskapjpg.jpg

Eftir góðan kaffisopa og með því hjá Sigurrós lögðum við enn af stað og nú áleiðis í Kringluna þar sem við ætluðum að borða kvöldverð á Kringlukránni og síðan í Borgarleikhúsið að sjá hann Ladda.

Við náðum að gera hvorttveggja, en það stóð tæpt að við næðum að borða kvöldverð fyrir leikhúsferðina því þegar við vorum nýlögð af stað niður Arnarsmárann var eitthvað einkennilegt hljóð í bílnum. Við nánari athugun reyndist þetta hljóð vera vegna þess að annar aftari hjólbarðinn var sprunginn og allt lekið úr honum.  Nú var eins gott að Haukur er alltaf með vinnusamfesting í bílnum því ekki var um neitt annað að ræða en að skipta um hjólbarða. Veðrið vann hinsvegar ekki með okkur því það var hvílík ausandi rigning að nánast var um skýfall að ræða.  Það gekk illa að finna festingu fyrir tjakkinn og við vorum að verða nokkuð vonlaus um að komast í mat og leikhús en allt í einu gekk þetta nú upp og við gátum gert aðra tilraun. 

Það er skemmst frá því að segja að lambasteikin sveik engan á Kringlukránni og Laddi sveik engan í Borgarleikhúsinu. 
Það var búið að gefa mér tvö heilræði til að fara eftir þegar ég færi að sjá Ladda.  Annað var að vera ekki með maskara og hitt var að pissa áður en sýningin hæfist. Ég sveik það fyrra og setti á mig vatnsheldan maskara því auðvitað fer maður ekki andlitslaus í leikhúsið. Hitt stóð ég hinsvegar við. Sýningin var auðvitað bráðskemmtileg þó ég gréti nú ekki af hlátri,  þá er hann Laddi alveg ótrúlega góður,  smellinn í textunum sínum og finn leikari.

Heim ókum við svo í svarta þoku og vorum komin hérna upp úr miðnætti.

Í dag var ég svo í fjögurra ára afmælinu hennar Sólrúnar Maríu og er alveg að springa af öllu góðgætinu sem í boði var. Haukur var hinsvegar fjarri góðu gamni því  hann var að vinna í aukavinnunni, sem verður að vinnast á kvöldin og/eða um helgar – ekkert skemmtilegt það.
Ég vona bara að hann fari að koma heim því ég er búin að skrá okkur á námskeið í samkvæmisdönsum hérna á Selfossi og það byrjar í kvöld klukkan níu.  

Hér er afmælisbarnið

solrafm.jpg

Já, það er nóg að gera hjá okkur gömlu – aldrei verið meira að gera og engin hætta á því að okkur leiðist, a.m.k. ekki þessa dagana.

Þá er ég kæra dagbók búin að standa skil á þessari vikunni, svona nokkurn veginn og  ekki má gleyma heilræðum vikunnar, en bókin góða segir okkur að hugsa um þetta:

Það mikilsverðasta í lífinu;
sambandið við annað fólk, heilbrigði og heilindi –
hamingjuna er að finna í hverju þessara atriða. 
 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Vikan á enda.

  1. Guðlaug Hestnes says:

    samkvæmisdansar…
    flott hjá ykkur.. verulega flott. Ég öfunda yfirleitt ekki nokkra sálu nema þegar kemur að dansmenntinni. Stundaði hana grimmt í „gamla daga“, og söng lengi með gömludansa hljómsveit. Veit fátt skemmtilegra. Dansið eins og þið eigið lífið að leysa…ég verð með í huganum.

  2. Svanfríður says:

    Góðan daginn. Er það bull hjá mér en var Haukur ekki hættur að vinna?

Skildu eftir svar