Ja, nú spyr ég aftur Hvað er nóg?

Ég var aldrei liðtæk í íþróttum eða góð í leikfimi á mínum yngri árum, en nú er ég sko rækilega að reyna að bæta fyrir gamla leti og ódugnað.  Ekki svo að skilja að þið eigið eftir að sjá mig á íþróttasíðum dagblaðanna eða í íþróttafréttum sjónvarpsins. Nei, af og frá.  Það sem ég er að gera er ég að gera fyrir sjálfa mig og nýt vonandi ávaxtanna af því með betri heilsu og meiri styrk.

Sjúkraþjálfarinn gaf mér grænt ljós á það í haust, að fara að æfa í sal og fara í tækin þar. Það hefur nú aldrei gengið hjá mér að vera í slíku og ég hef alltaf þurft að hætta, en í þetta skiptið ætlar þetta að ganga og ég fer í æfingasal hjá sjúkraþjálfaranum á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum og fer svo í vatnsleikfimi á þriðjudögum og fimmtudögum.  Á fimmtudögum þegar ég kem úr sundlauginni förum við Haukur svo í beint í línudans hjá eldri borgurum og svo skelltum við okkur á námskeið í samkvæmisdansi á sunnudagskvöldum.  Haukur hefur lengi farið daglega í líkamsrækt svo það er ekkert nýtt fyrir hann  og hann er í fínu formi. Edda systir mín og Jón mágur eru í þessu sama og við nema í samkvæmisdönsunum.

Ég verð nú að játa að stundum hugsa ég sem svo hvort það sé of mikið fyrir gigtveikt gamalmenni að  vera allt í einu komin í daglega líkamsrækt og ég verð að viðurkenna að á fimmtudaginn þegar við vorum komin í línudansinn klukkutíma eftir að við systur kláruðum óvenjuhraðan tíma í vatnsleikfiminni og ég var bara alveg að leka niður,  þá vaknaði hjá mér sú spurning hvað ég væri eiginlega að hugsa. En ég  fékk svarið frá sjálfri mér um hæl – þetta er allt svo skemmtilegt.

í síðasta tíma þá héldum við að línudanskennarinn væri að grínast þegar hann sagði að við ættum að sýna á árshátíð eldri borgara á Selfossi á Hótel Selfossi, þann 7. nóvember og við vorum beðin að skrá okkur sem vildum taka þátt í sýningunni.  En þetta var bara ekkert grín heldur fúlasta alvara. Þetta var þriðji tíminn í línudanskennslunni og … nei takk sama og þegið, ég geri meiri kröfur til sjálfrar mín en að fara að sýna dans sem ég er varla búin að læra sjálf.  Vonandi eru þó einhverjir í hópnum það hugaðir að þeir mæta í kúrekastígvélum og með kúrekahatt og taka þátt í sýningunni, en það var ekki það sem ég hafði í huga með línudansinum.  Samt er maður með hálfgerðan móral yfir því að gera þetta ekki því við þurfum ekki að borga krónu fyrir námskeiðið og auðvitað væri sanngjarnt að gera þetta í staðinn.

Jæja gott fólk, gamla galna konan á Selfossi leggur ekki meira á ykkur í bili en sendir góðar kveðjur og segir við ykkur öll

GÓÐA HELGI OG LÍÐI YKKUR VEL.

Lífið er of dýrmætt til þess
að lifa það aðeins í draumum sínum.
(Það segir bókin góða a.m.k. )

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Ja, nú spyr ég aftur Hvað er nóg?

  1. Guðlaug Hestnes says:

    Því ekki?
    En allvega húbbahúllahúllahúlla! Góða helgi.

  2. Guðlaug Hestnes says:

    vandræði..
    Get ekki kommentað á Austurkots Þórunni, en veit að hún kíkir hér inn. Langaði bara að segja: gangi ykkur vel.

  3. Svanfríður says:

    Þú ert DUGLEG mrs.Ragna:)

  4. afi says:

    Frábært
    Gangi þér vel í þrekþjálfuninni og dansinum. Hver veit nema að við fáum að sjá þig á síðum íþróttablaðanna áður en varir, ef svo heldur fram sem horfir.

  5. edda systir says:

    gamla konan
    Hvaða gamla kona er þetta sem þú ert að tala um spyr systir sem er sjö árum eldri ?? Erum við ekki á leið í hina áttina ?

Skildu eftir svar