Í vætutíðinni.

Aðeins sást í bláan himin í dag, en það var nú bara í augnablik. 

regnb1jpg.jpg

Í gær var enn einn rigningardagurinn og þegar rigningin drundi á gluggunum klukkan hálf eitt um hádegið varð mér hugsað til þess að ömmustubburinn minn ætti að fara í gítartíma og yrði hundblautur af að ganga alla leið í tónlistarskólann og það fannst ömmu nú ekki vera nógu gott.

Ég snaraði mér því í regnjakka og ók út í skóla.  Þegar Oddur kom fram í andyrið var Palli vinur hans, sem á heima hérna í næstu götu með honum og Oddur sagði að hann hefði ætlað að labba með sér. Ég dreif Palla  því líka upp í bílinn og sagðist skutla honum heim. Þegar Oddur fór úr bílnum við tónlistarskólann ætlaði Palli að fara út líka en ég sagði honum endilega að vera ekki að fara út í rigninguna því ég ætlaði keyra hann heim í leiðinni. Hann kom inn í bílinn aftur en var eitthvað vandræðalegur og þegar ég ók af stað í áttina heim í Sóltún þá datt upp úr honum að hann hefði allt í einu munað að hann hafi átt að koma til ömmu sinnar. -Hvar á amma heima? -Í Grænumörk. Einmitt já, alveg í hinum enda bæjarins. Auðvitað fór ég með hann til ömmu sinnar en mér varð hugsað til þess hversu blautur hann hefði orðið að labba fyrst með Oddi og síðan út í Grænumörk. Þeir eru nú alveg yndislega ruglaðir þessir litlu töffarar.  Þegar Oddur kom svo til ömmu eftir tónlistarskólann þá hafði amma orð á því að hann þyrfti nú að fara að láta klippa sig. – Amma eigum við að koma mömmu á óvart og vera búin að fara með mig í klippingu?   Jú, amma var til í það og í allri ausandi rigningunni og rokinu fórum við til rakarans og líklega vegna veðursins var aldrei þessu vant rólegt þar og hann var næstur í stólinn.

Í dag tók svo amma þessa mynd af töffaranum,
eitthvað var þó hárgreiðslan farin að ruglast.

oddurv1.jpg

Nú er vetrarfrí í skólanum frá fimmtudegi til mánudags og ekki er ólíklegt að við gerum okkur öll glaðan dag eða daga af því tilefni eins og við höfum gert undanfarin ár.  Um það verður líklega pistill með myndum eftir helgina.

——————————————-

Ég var að kíkja á gömul myndaalbúm og rakst þá á þessa mynd sem mér hefur alltaf þótt svo vænt um.  Hún er frá 1982 þegar við vorum í Munaðarnesi í nokkra daga og hér erum við Oddur heitinn með Sigurrós litla á milli okkar en Guðbjörg hafði fengið að hafa myndavélina og tók þessa mynd.

dyrmt_mynd2.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Í vætutíðinni.

  1. Þórunn says:

    Regnboginn
    Þessi mynd þín af regnboganum finnst mér alveg stórgóð. Þeir eru nú ekki að velta sér upp úr smámununum þessir stubbar, finna ekki fyrir því að vera rennandi blautir.
    En okkur „gamla“ fólkinu finnst alveg nóg um og gáum vel til veðurs áður en við leggjum af stað í göngutúr.
    Við gerum ráð fyrir að hitta ykkur í næstu viku, kveðja frá Palla og mér, Þórunn

  2. Sigurrós says:

    Þessi mynd af okkur er líka í uppáhaldi hjá mér 🙂

Skildu eftir svar