Vetrarfrí í Brekkuskógi.

Það var búin að vera mikil tilhlökkun í fjölskyldunni að fara í bústað í vetrarfríinu í skólanum. Amma og afi eru svo heppin að fá enn og aftur að vera með unga fólkinu okkar hérna á Selfossi í bústað í þessu árlega skólafríi.

Að þessu sinni var ferðinni heitið í Brekkuskóg en í fyrra vorum við í Úthlíð og síðustu skiptin þar áður á Flúðum.   Við lögðum upp á fimmtudaginn og vorum í samfloti á staðinn. Ekki vissum við nú hvernig veðri  mætti búast,  töldum alveg eins líklegt að það yrði rok og rigning eins og verið hefur undanfarið, en veðrið olli okkur ekki neinum vonbrigðum því það var yndislegt allan tímann.
Það urðu hinsvegar nokkur vonbrigði  þegar við komum á staðinn, að bústaðurinn var ískaldur og ekki nokkur leið að koma hita á ofnana. Eftir nokkrar hringingar til STÍS sem á bústaðinn, var okkur sagt að daginn eftir kæmi pípari og reddaði málunum svo við gætum verið í bústaðnum um helgina.  Það stóð heima að píparinn kom úr Reykjavík á föstudeginum og skipti um forhitara og gerði eitthvað fleira. Seinni partinn byrjaði svo að koma ylur á húsið og í kroppana sem voru orðnir all kaldir eftir meira en sólarhringskulda. 
En þetta var nú ekki það eina sem átti eftir að gera þessa helgi eftirminnilega því á laugardagskvöldið þegar við vorum (sem betur fer) komin með steikina á borðið og nýbyrjuð að borða, þá dofnuðu ljósin allt í einu en slökknuðu þó ekki alveg. Ég hélt að krakkarnir sem voru farin frá borðinu,  hefðu fundið dimmer en svo var ekki. Ljósin smá slökknuðu og  nú var var gott að hafa nóg af sprittkertum meðferðis því það var eini ljósgjafi okkar í næstu þrjá klukkutímana. Við lukum við að matast og  svo var haldin kvöldvaka. Haukur spilaði á harmonikuna og við sungum með, síðan sótti Magnús gítarinn sem ég hafði laumað meðferðis til þess að fá Magnús til að spila á, en hann var kaldur og rakur (gítarinn en ekki Magnús) og erfitt að stilla hann svo hann var eiginlega ónæthæfur. Næst verður gítarinn tekinn inn um leið og dótið en ekki falinn úti í bíl.

Loksins kom svo rafmagnið  og þó það hafi verið viss sjarmi yfir því að hafa bara kertaljós þá vorum við fegin að rafmagnið kom aftur fyrir nóttina.  Ekki vitum við neina skýringu á þessu rafmagnsleysi enda var veður einstaklega fallegt, kalt, snjóföl og logn.

Það var ýmislegt gert sér til dundurs þessa helgi fyrir utan kvöldvökustemninguna á laugardagskvöldið, ráðnar krossgátur, pússlað, farið í Gettu betur, perlað, búin til jólakort, farið í heita pottinn og skroppið út að Geysi fyrir utan allan góða matinn og annað gott sem við nutum að setja í belginn á okkur.

Við vorum einstaklega heppin með veður og nutum þess að skreppa í göngutúra í vetrarkyrrðinni og umhverfið skartaði sínu fegursta þessa daga.

Myndirnar mínar eru allar hér og Magnúsar myndir eru hér.

Tvær myndir læt ég þó fylgja hér með.
Þessi er tekin í göngutúr á laugardagsmorguninn. 

vetrarfegurd1.jpg

Þessi mynd er af krökkunum í snjónum.
Ragnar upplifði snjó í fyrsta skipti á sinni eins og hálfs árs ævi
og sagði í sífellu gaman að leika. 

vetrarfri1.jpg

 Ég þakka ferðafélögunum fyrir skemmtilega og
eftirminnilega dvöl þessa vetrardaga í sumarbústað í Brekkuskógi.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Vetrarfrí í Brekkuskógi.

  1. Sigurrós says:

    Virkilega gaman að skoða myndirnar úr ævintýraferðinni miklu! 🙂 Myndirnar af krökkunum í snjónum eru sérlega skemmtilegar – ég bíð spennt eftir að litla rófan mín verði nógu stór til að leika sér í snjónum 🙂

  2. snjór..
    og hamingjusöm börn með rauðar kinnar…ömmur og afar með í leik..gerist ekki fallegra.

  3. Ragna says:

    Já, gaman, gaman.
    Já Guðlaug, ég tel það algjör forréttindi að það skuli vera fastur liður að amma og afi komi með í slíkar ferðir og það máttu vita að ég nýt þess að vera með barnabörnunum og það er gaman þessa dagana að fylgjast með aukinni málsnilld minnsta stubbs, sem nú er farinn að geta ágætlega tjáð vilja sinn og væntingar í orðum.

  4. Þórunn says:

    Fallegar myndir
    Það er bara krydd í tilveruna þegar óvæntar uppákomur skreyta annars venjulega fjölskylduhelgi. Ég sé ekki betur en að þú sért komin með nokkrar frábærar myndir á jólakort, til dæmis þessi þar sem húsið speglast í vatninu. Þetta hefur verið frábær helgi, þrátt fyrir allt.
    Kveðjur úr Kópavoginum, Þórunn og Palli

Skildu eftir svar