Hraðlestin.

Enn er tíminn á hraðferð og maður reynir eftir megni að hanga á þeirri hraðlest.
Þegar ég var barn og unglingur þá fannst mér tíminn oft líða svo hægt og það sem ég hlakkaði til var alltaf eitthvað svo langt í burtu. Svo komst nú jafnvægi á þetta svona á þrítugsaldrinumog fertugsaldrinum og jafnvel á fimmtugsaldrinum, en þá fór þó aðeins að bera á því að tíminn fór að fara nokkuð hratt áfram, samt sem áður, þá kom maður því nú nokkurn veginn í verk sem maður ætlaði sér að gera á þessum árum.  Á sextugs-,  og að ég  tali nú ekki um núna á sjötugsaldrinum  þá bara flýgur tíminn hjá og maður verður að hafa sig allan við að hanga á hraðlestinni.  Hver dagurinn og vikan og mánuðurinn beinlínis flýgur áfram og það virðist einhvern veginn alltaf vanta tíma til þess að gera það sem maður hefur hugsað sér að gera. 
Já einmitt, HUGSAÐ sér að gera.

Bank, bank!  Hver segir að maður þurfi alltaf að standa í stórræðum?  Er ekki kominn tími til þess að maður hætti að gera þær kröfur til sjálfs sín,  að vera  einhver ofurkona sem öllu kemur í verk og aldrei slórar. 

Edda systir mín  var  í gær að segja mér frá bók sem hún er að lesa. Í framhaldi af því þá fór ég að tala um að það væri bara verst hvað maður kæmist hægt yfir að lesa því syfjan tæki strax yfirhöndina  þegar maður grípur í bók uppi í rúmi á kvöldinn.  Það kom í ljós að hún hefur sama háttinn á og ég, að lesa eingöngu fyrir svefninn.  Við fundum fljótt ástæðuna fyrir þessu.
Við vorum aldar upp við það að setjast ekki niður með bók að lesa á daginn þegar hægt var að finna sér verk til að vinna.  Móðir okkar var ein af þessum fyrirmyndar húsmæðrum sem eldaði, bakaði, prjónaði, saumaði öll föt á okkur og  hélt heimilinu alltaf skínandi hreinu. Hún var vel lesin en sást aldrei með bók í hönd á miðjum degi.   Þetta hefur innprentast í okkur systur.

Nú er ég hinsvegar að hugsa um hvort það sé ekki rétt og tímabært (móðir okkar löngu búin að yfirgefa þennan heim),  að klippa endanlega á naflastrenginn og reyna að brjótast út úr þessu gamla fari.

Af hverju á ég ekki bara að leyfa mér að setjast niður og lesa í bók eða jafnvel að kveikja á sjónvarpi þó dagur sé án þess að hafa það á tilfinningunni að það sé leti og að ég eigi frekar að vera að sauma eða gera eitthvað annað.  Oftast er tíminn hvort sem er að fara í tóma vitleysu  og  lítið liggur eftir.   

Málið er að ÞAÐ ÞARF EKKERT AÐ LIGGJA EFTIR. Við sem erum komin á þennan aldur erum fyllilega búin að skila okkar lífsstarfi og skyldum til afkomendanna og til samfélagsins Við eigum auðvitað að gera nákvæmlega það sem okkur langar til, enda er þetta bara meinloka í okkar eigin heilabúi sem þarf að smella á EYÐA.

Jæja, enn eina ferðina hafa fingur mínir tekið völdin og eru búnir að pikka hér inn allt annað en ég ætlaði mér að segja, en hitt kemur bara eftir helgina. Þennan texta fann ég í bókinni góðu:

Hamingjan felst í því að  njóta þess
sem maður hefur áorkað, sama hve lítið það er.

Góða helgi
og látið ykkur líða vel, takið bók í hönd
um miðjan dag og slæpist þið eigið það skilið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Hraðlestin.

  1. Guðlaug Hestnes says:

    svo satt…
    Orð í tíma töluð, og get ekki verið meira sammála. Er farin að kunna þá list að gera ekkert þegar ég má. Góða letihelgi mín kæra.

  2. Sigurrós says:

    Mikið var!
    Loksins ertu búin að uppgötva þennan sannleik! Það má nefnilega alveg hafa það huggulegt á daginn líka, sérstaklega þegar það er nú allt svona svakalega fínt hjá manni eins og er alltaf hjá þér 🙂 Njóttu þess bara að setjast í hægindastól á miðjum degi með góða bók í hönd – og jafnvel skál með súkkulaði við hlið þér 😉

Skildu eftir svar