Tókum þátt í óvæntri uppákomu.

Á fimmtudaginn fórum við í bæinn, vorum framan af degi í ýmsum útréttingum,  en um miðjan dag fórum við suður í Hafnarfjörð  til þess að taka þátt í miklu samsæri.
 
Hugljúf dóttir Hauks (sem býr á Jótlandi) var búin að skipulegga heilmikið "Surprise" fyrir manninn sinn, í tilefni af þrítugsafmæli hans. Hún og allir sem vissu um hvað málið snerist, létu hann lifa í þeirri trú í nokkurn tíma að honum væri boðið til Kaupmannahafnar til þess að vera þar yfir helgi. Hann fékk að vita á hvaða hóteli þau yrðu og hvað þau myndu gera í borginni. Hann var búinn  að hlakka mikið til og skipuleggja á hvaða krár hann langaði að fara og hvaða bjór hann langaði til að smakka. Allir í fjölskyldunni tóku hinsvegar þátt í allt öðrum undirbúningi.

Til þess að gera langa sögu stutta þá dreif Hulla Eika hinsvegar með sér út á flugvöll þegar til Kaupmannahafnar var komið og  þau búin að gista í eina nótt hjá systur Eika. Honum var sagt að þau þyrftu að fara út á flugvöll til þess að taka á móti vini hans sem ætlaði að skemmta sér með þeim í Köben. Þegar á Kastrup var hinsvegar komið,  þá kom í ljós að það var enginn vinur að koma heldur var ferðinni heitið til Íslands þar sem þau myndu koma fjölskyldunni á óvart.

Já þetta með að koma fjölskyldunni heima á Fróni á óvart var hinsvegar ekki alveg sannleikanum samkvæmt frekar en annað,  því á þeim tíma stóð mamma hans Eika í ströngu heima á Íslandi við að undirbúa matar- og kaffiveislu fyrir nánustu ættingja og vini.
Þar vorum við Haukur svo mætt á tilsettum tíma, ásamt ættingjum og vinum Eika, til þess að koma okkur í felur í tæka tíð áður en þau kæmu af flugvellinum. 
Þegar þau síðan komu inn spruttu allir fram til þess að taka á móti þeim.  Það var ekki skrýtið að Eiki væri hálf ruglaður á þessu öllu saman og hvort hann á nokkurn tíman eftir að trúa framar orði af því sem konan hans eða móðir segja veit ég ekki.  Hér er Eiki nýkominn í hús og afi hans og amma ljóma af ánægju yfir að hitta hann. Myndirnar mínar eru hér, en ég vildi að ég hefði verið duglegri að taka myndir.

afmeik1.jpg

Allar hinar óvæntu uppákomurnar með unga fólkinu ætla ég ekki að tjá mig um enda á hann sjálfsagt eftir að segja frá því sjálfur á vefnum þeirra  En þau komu svo til okkar í fiskisúpu um hádegið á föstudag og Borghildur og Leonora komu líka hérna austur.  Síðan er heimferð aftur á sunnudag og úti er ævintýri.

Hér er mynd af þeim systrum Borghildi og Hullu ásamt Leonoru.

afmeika2jpg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar