Garðar kvaddur.

Enn á ný hefur ein okkar í saumaklúbbnum mínum misst manninn sinn.  Garðar Steinarsson, flugstjóri maður Ástu, verður kvaddur hinstu kveðju frá Neskirkju í dag.  Garðar var yndislegur maður hlýr og sannur.

Það komu sérstaklega upp í huga mér í morgun tvær minningar tengdar Garðari og báðar tengjast þær flugferðum.

Hún verður alltaf minnisstæð flugferðin sem við Edda Garðars fórum í hérna í gamla daga þegar við vorum um tvítugt. Ferðinni var heitið til Kaupmannahafnar og vorum við báðar hálf smeikar við að fljúga, en þó var léttir að vita að hann Garðar væri við stjórn vélarinnar.  Flugvélarnar voru nú heldur betur öðruvísi þá en þær eru í dag og úr sætunum okkar sáum við beint á hreyfilinn á vængnum.  Þegar vélin var komin á loft og við þorðum loks að kíkja út þá sáum við að það stóðu eldglæringar úr hreyflinum. Við urðum lafhræddar og héldum að það væri eitthvað mikið að og það myndi örugglega vera kviknað í.  Um þetta leyti kom flugfreyjan með koníaksstaup til okkar með kveðju úr flugstjórnarklefanum.   Nokkru síðar kom Garðar svo fram í vél til okkar til þess að vita hvernig við hefðum það og við sögðum honum óðamála að það væri eitthvað að vélinni því það virtist vera eldur í hreyflinum. 
Þá sagði Garðar með hægð "Ja mikið er gott að vita það. Nú skuluð þið fylgjast vel með og ef þið takið eftir því að engar eldglæringar koma lengur úr hreyflinum þá skuluð þið gera viðvart, því þá er mikil alvara á ferðum."   Við fórum nú aðeins að slaka á eftir þetta, og eitt er víst að þessari ferð gleymum við vinkonurnar aldrei.

Svo þegar saumaklúbburinn, ásamt Hróðný dóttur Ástu og Garðars, fór til Newcastle fyrir nokkuð mörgum árum og við biðum í flugstöðinni á heimleið eftir því að kallað yrði út í vél þá birtist allt í einu flugstjóri í fullum skrúða og stefndi beint í áttina til okkar.  Þar var Garðar kominn og kom okkur öllum á óvart þar á meðal konunni sinni,  því hann flaug ekki á þennan áfangastað og því átti hún alls ekki von á því að hann birtist þarna.  Hann hafði hinsvegar langað til þess að sækja okkur og fengið að hafa skipti á ferðum til þess að geta komið og sótt okkur.  Svona var Garðar.

Þó það sé svo mikil sorg þegar góðir menn fara þá er líka svo sorglegt að vita fólk þjást í langan tíma af erfiðum sjúkdómi sem enginn ræður lengur við og ekkert lengur hægt að gera. Það er því bæði sorg og léttir í hjörtum okkar í dag þegar við kveðjum Garðar.

Myndin af okkur saumaklúbbssystrum með Garðar á milli okkar í flugstöðinni í Newcastle er því miður bara á pappír en ekki tölvutæku formi svo ég get ekki leyft ykkur að sjá hana en það eru allir brosandi og glaðir á þeirri mynd. Þannig minningar er best að geyma.

Nú ætla ég að drífa mig í bæinn svo ég komi ekki of seint til kirkjunnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Garðar kvaddur.

  1. Linda says:

    Elsku Ragna, mínar dýpstu samúðarkveðjur sendi ég þér yfir hafið..

  2. Guðlaug Hestnes says:

    minning..
    um góðan dreng lifir. Kær kveðja

  3. Svanfríður says:

    Þetta var fallegur pistill, hlýr og góður, eins og þú ert.
    Ég samhryggist þér með vin þin. Taktu fast um konuna hans, hafðu það gott, Svanfríður.

  4. afi says:

    samúðarkveðja.
    Votta þér og nákomnum, mína innilegustu samúð á þessari stundu.

  5. afi says:

    Vel kunnugur.
    afi lét þess ekki getið í gær, þegar hann sendi samúðarkveðjuna, að afi var vel kunnugur Garðar. Einnig systur hans Steinunni. Blessuð veri minning Garðars Steinarssonar.

Skildu eftir svar