Mikið rosalega er ég orðin slöpp að skrifa í dagbókina mína. Ég á nú von á því að eftir næstu viku verði ég duglegri við þetta.


Ég hef svona verið aðeins að hjálpa Guðbjörgu, sem er nú óðum að ná sér eftir æðahnútaaðgerðina. Á föstudaginn voru saumarnir teknir og þá gat hún farið að keyra sjálf en ég er búin að fara með börnin í skóla og sækja þau alla dagana. 


Það er eins gott að Guðbjörg fari að hressast verulega því það standa fyrir dyrum flutningar hjá henni.  Hún lumar nefnilega á kærasta og þau virðast bæði ástfangin upp fyrir haus. Þau eru búin að taka á leigu hús hérna og Guðbjörg ætlar til að byrja með að leigja út húsið sitt. Þetta verður svona tilraunabúskapur og ef vel gengur þá ætla þau síðan að kaupa sér saman hús. Húsið sem þau leigja er til leigu á meðan beðið er eftir að það seljist svo þau ætla svona að sjá hvernig þeim líður þarna með það í huga að kaupa síðan. Annars finna þau bara eitthvað annað. Þau þurfa svoldið stórt því hann er með son sinn alveg hjá sér og dóttir hans sem er aðeins eldri en Karlotta er svo oft hjá pabba sínum að hún þarf líka smá pláss. Annars eru þær alveg samlokur Karlotta og hún svo best væri að hafa þær saman. Já svona gengur nú lífið  hérna á Selfossi.  Það er allavega rómantík í loftinu.


Við gömlu brýnin vorum að horfa á Gísla Martein og Spaugstofuna. Mikið rosalega eru skemmtilegir þættirnir hjá honum Gísla Marteini. Við vorum að tala um hvað hann væri líka fundvís á skemmtilega gesti. Alltaf óborganlegt að sjá og heyra Flosa Ólafsson þó hann sé að verða svona gamall eins og hann segir sjálfur. Nú situr Haukur og horfir á mynd með Britney Spears en ég bara nenni alls ekki að horfa á svona unglinga-söngva-myndir. Annars var mjög fín myndin í gær með John Travolta Domestic Disturbance


Ég veit nú ekki hvað ég verð dugleg að skrifa næstu daga því á morgun kemur Ingunn mágkona mín og ætlar að vera hjá mér fram á miðvikudag. Við verðum örugglega svo uppteknar við að bralla eitthvað að ég býst ekki við að setja neitt inn fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag. Ég ætlaði að setja hérna „link“ með mynd af Ingunni en það duttu allar myndirnar úr myndaalbúminu mínu hérna á vefsíðunni um daginn og ég á eftir að fá aftur inn myndir sem voru hérna af tengdafólkinu mínu. Ég bæti úr því seinna, þ.e.a.s. Sigurrós bætir úr því fyrir mig. Maður er nú með tæknimann, ha, ha. 


Fleira set ég ekki í bili því Haukur er búinn að gefast upp við þessa leiðinlegu unglingamynd og við ætlum að taka smá Scrabble.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar