Að spjara sig.

Nú er vika til stefnu. Við mæðgurnar ætlum að láta gamlan draum rætast og fara saman í stutta ferð til London næsta fimmtudag.   Ég var að segja mági mínum frá þessu þegar hann talaði við mig á afmælisdaginn minn og það fyrsta sem honum datt í hug var  "En hvað með börnin?"  Þar sem þessi mágur minn er mikill grínari þá var ég svo sem ekki viss um það hvort hann var að tala af alvöru eða í gríni, en ég dreif mig að svara og sagði að það vildi svo vel til að þau ættu líka feður og ég væri ekki í nokkrum vafa um að þeir myndu spjara sig. 

Mér datt hinsvegar í hug hvort álíka spurning hefði komið upp ef þrír karlmenn hefðu ætlað einir til útlanda eða annað yfir helgi og börnin yrðu heima hjá mæðrum sínum.  Hvort einhver hefði þá spurt  "En hvað með börnin?".

Vonandi fer nú að líða að því að þessi gamli hugsunarháttur verði endanlega aflagður og að konur geti líka leyft sér að fara í örfáa daga í burtu af heimilinu án þess að vera með samviskubit yfir því að "aumingja" maðurinn þurfi að vera heima með börnin.

Annars held ég að það séu allir svo boðnir og búnir að rétta blessuðum feðrunum hjálparhönd ef þeir þurfa að vera einir heima, að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af þeim.

Ég man hvernig það var hérna í gamla daga, þá örsjaldan sem það gerðist að ég færi ein í burtu og væri kannski  í 2 til 3 daga.  Móðir mín og tengdamóðir kepptust þá alveg út í eitt við að bjóða bónda mínum í mat, meira að segja áður en  hann var kominn með barn að hugsa um.  Ég man hinsvegar ekki eftir því að allt færi á annan endann yfir því að ég væri ein heima, (líka eftir að ég varð móðir)  og ég minnist þess ekki í slíkum tilvikum, að ég hafi verið upptekin við að ganga á milli matarboða í öll mál, þó vissulega hafið það komið fyrir að mér væri boðið í mat. Vinnu mannsins míns var þannig háttað að hann þurfti að ferðast talsvert bæði innanlands og utan  svo ég var talsvert ein heima. en það var bara ekkert sjálfsagðara en að ég spjaraði mig.

Ég er líka alveg viss um að tengdasynir mínir spjara sig af miklu öryggi þessa fáu daga sem þeir verða einir með börn og bú. – Ekki spurning. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Að spjara sig.

  1. Magnús Már says:

    Þakka traustið
    Þakka þér traustið tendamóðir sæl. Að sjálfsögðu spjörum við okkur, það er ekki spurning. Þó er kannski neyðarlegt að viðurkenna það við þessar aðstæður að ég hyggst heimsækja móður mína og föður fyrir norðan þessa helgi þannig að ég verð í mjög svo vernduðu umhverfi.

  2. „karlar“!
    eru náttúrulega dásamlegir, en eru fordekraðir….og af hverjum?….okkur. Skemmtið ykkur nú ærlega í London og ég bið fyrir kveðju til frú Betu!

  3. afi says:

    Góð ferð.
    Góða ferð og góða heimkomu. Allt á eftir að ganga upp. Sannaðu til.

  4. Svanfríður says:

    Þarna rataðist þér rétt orð í munn!:)

  5. Hulla says:

    Góða ferð
    Og skemmtiði ykkur sem allra allra best.
    Að sjálfsögðu spjara pabbarnir sig rosa vel 🙂 Þannig er það alltaf.
    Góða ferð en og aftur…

Skildu eftir svar