Á ég eða?

Nú er fyrir alvöru farið að telja niður til Londonfararinnar og ferðatöskurnar hafa verið sóttar í bílskúrinn og þær komnar inn á gólf í svefnherberginu. 
Þar sem ég er snillingur í því að gera einfalda hluti flókna þá er núna einum og hálfum degi fyrir brottför um það bil að hefjast hringdansinn. Þessi dans bæri vel nafnið  Á ég eða? en hann er oft notaður á mínu heimili og ekki síst ef fara á í ferðalög en þá er hann fyrst dansaður  í kringum töskurnar og síðan …. Dansinum lýkur svo þegar ég hef tekið ákvörðun um það hvaða tösku ég ætla með í ferðalagið.  Á hún að vera stór eða dugar kannski lítil um það snýst sem sé fyrsti hringdansinn.
Síðan er komið að þeim næsta  og hann á líklega eftir að standa enn lengur en sá fyrsti. Í þetta sinn er dansað í kringum fataleppana sem á að vera í á leiðinni og þá sem eiga að fara í töskuna.  
Hvernig ætli veðrið verði þarna, ætli það verði þurrt og kalt? Já, það er líklega best að vera bara í úlpu því það er oft svo ónotalega kalt og hráslagalegt í London á þessum árstíma. 
En, hvað ef það verður nú rigning?  Já, kannski er bara betra að vera í útivistarjakka. En,  í hverju á ég þá að vera ef við skreppum út að borða að kvöldinu – ekki gerir maður það í útivistarjakka.  Það fer mestur tími í að taka svona mikilvægar ákvarðanir og nú er dansinn orðinn mun hraðari en í kringum töskurnar sjálfar, ekki síst fyrir það að ég ætlaði að reyna að hafa ekki allt of mikið með mér. 
Svo heldur dansinn áfram og áfram þar til komið er að brottför. En þá hafa margir hringir farið í það að ákveða og skipta síðan um skoðun. Best er þegar töskurnar eru komnar út í bíl ásamt eigandanum sem annaðhvort verður þá í úlpu eða regnjakka, gallabuxum eða sparibuxum, götuskóm eða hælaskóm.

Í dag er þetta allt saman óljóst enda hringdansinn rétt að byrja.

Mikið væri það nú gott, ef áhyggjuefni heimsins væru svona léttvæg.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Á ég eða?

  1. sko mín kæra…
    Buxur, vesti brók og skór, bætta sokka og allt það! Þetta var dásamleg lesning, en trúðu mér, það er hráslagaleg í London á þessum tíma…Úlpa í öll mál! Góða ferð og skemmtun.

  2. Hulla says:

    Vá hvað þið eigið eftir að skemmta ykkur frábærlega…
    Góða ferð mæðgur.

  3. Svanfríður says:

    hahahaha-þessi pistill var snilld! Ég varð ringluð af honum:)

Skildu eftir svar