Skrýtinn sólarhringur.

Já þetta hefur vægast sagt verið skrýtinn sólarhringur. Ég tók fram töskurnar í gær eins og til stóð, fór síðan í vatnsleikfimina og nokkru eftir að ég kom heim þá byrjuðu skjkálftarnir. Fyrst hélt ég að það væri verið að sprengja eitthvað hérna nærri en hugsaði síðan ekkert meira um það fyrr en næsta sprenging kom en þá fór ekkert á milli mála að þetta var jarðskjálfti og síðan kom hver af öðrum.  Ég var komin með hvílíkan kvíðahnút í magann og JÁ ég hellti mér sherrýi í glas  en þegar ég ætlaði að fara að súpa á því þá hringdi síminn og allt önnur atburðarrás tók við.

Þannig er nefnilega mál með vexti að Guðbjörg og Magnús þurftu, samkvæmt tilvísun læknis sem var hérna á vakt, að fara með Ragnar á læknavaktina á Barnaspítalanum  í Reykjavík. Það er nú nokkur saga sem ætti að fylgja en ég ætla ekki að segja hana hér en ég get bara sagt að han hefði átt að vera meðhöndlaður mikið fyrr en það var ekki gert fyrir læknamistök. Til þess að gera langa sögu stutta er Ragnar kominn á lyf sem virðast gagna og þau komu með hann aftur heim í nótt.

Aftur að gærkveldinu og ömmunni sem ætlaði að fara að drekka sherryið.  Allt í einu voru nú komnir tveir næturgestir í húsið, þau Karlotta og Oddur Vilberg sem þurftu að gista hjá ömmu og afa á meðan þau Guðbjörg fóru til Reykjavíkur.  Okkur tókst nú að halda þeim sæmilega rólegum, en auðvitað var enginn rólegur í þessum stöðuga skjálfta.  Þau sofnuðu þó fljótlega  og þá loks drakk sú gamla þessa sherrylögg úr glasinu. Það var síðan beðið þangað til vitað var um afdrif litla sjúklingsins og farið í rúmið um tvöleytið.

Ekki var mér nú svefnsamt og smá skjálftar voru að gera vart við sig af og til og ég hlustaði á útvarpið því það komu alltaf fréttir á heila tímanum. Ég ákvað síðan að skoða hvernig maður ætti að haga sér ef eitthvað mikið gerðist og fór eftir þann lestur fram í bílskúr og sótti vasaljós, sótti sjúkrakassa og setti bíllykilinn við útidyrnar og var að hugsa um að klæða mig aftur og leggja mig í fötunum en hætti nú við það. Ég var svo búin að blunda í smá stund þegar einn stærsti skjálftinn kom um klukkan hálf fimm í morgun. Það var því ansi mygluð gömul amma sem kom inn til barnanna og vakti þau til að fara í skólann og fór síðan til þess að vera hjá Ragnari svo þau Guðbjörg og Magnús kæmust til vinnu. þau voru bæði búin að vera heima með litla snúð til skiptis og mér fannst ótækt að þau þyrftu að vera heima einu sinni enn.

Það var því ekki fyrr en seinni partinn í dag sem ég fór að hugsa um ferðina. Nú hefur allt róast og enginn titringur í nokkra klukkutíma svo ég er að vona að við getum sofið sæmilega í nótt.  það er víst ekki skrýtið að þessir skjálftar hafi fundist svona mikið þrátt fyrir að vera ekki yfir 3,5 stig en það mun vera af því upptökin voru nánast hérna á Selfossi og svo grunnt niður á hræringarnar eða aðeins 2 km.

Maður verður víst að fara að gera sér grein fyrir því að nú býr maður á svona skjálftasvæði.  Já hérna, það sem maður er búinn að koma sér í.

Nú hef ég þetta ekki lengra.  Strax og Guðbjörg losnar úr kennslu um hádegi á morgun þá leggum við af stað, sækjum Sigurrós og brunum út á flugvöll. 
Við heyrumst svo þegar ég kem til baka. 

Þennan texta fann ég í bókinni góðu:

Lífið er ferðalag
og til þess að njóta þess
verður maður öðru hvoru
að gerast túristi.

Góða helgi.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Skrýtinn sólarhringur.

  1. afi says:

    Áhyggjur
    Áhyggjur af börnum eru öllum áhyggjum yfirsterkari. Vonandi gengur allt vel.

  2. Svanfríður says:

    Gott að heyra að snúður hafi fengið meðhöndlun þótt seint hafi verið.
    Góða ferð vinkona og njóttu þín.
    Kærar kveðjur,Svanfríður.

Skildu eftir svar