Mæðgurnar í London.

Það er nú kominn tími til að sýna á sér lífsmark.

Lundúnarferð okkar mæðgna tókst með miklum ágætum. Samt sem áður fór auðvitað ótrúlega mikill tími í búðarráp enda ekki við öðru að búast því það er ekki of sterkt til orða tekið þegar ég segi að það hafi verið örtröð á Oxfordstræti um helgina og við áttum fullt í fangi með að týna ekki hvor annarri.

Auðvitað höfðum við viðkomu í Hamleys það er nú ekki annað hægt en að leyfa barninu í sér að taka á nokkrum leikföngum og knúsa nokkra bangsa stóra og smáa. þegar ég var búin að stilla mér upp til myndatöku þarna í andyrinu á leiðinni út, þá kom þessi litla hnáta hlaupandi til að vera með mér á myndinni. Ekki kann ég nokkur deili á henni en kannski hefur henni fundist mig vanta ömmustelpu til að vera með á myndinni.

ilondon_1.jpg

Á leið í Covent Garden á sunnudeginum.

ilondon2.jpg

Á sunnudaginn fórum við í Covent Garden og skoðuðum handverksmarkaðinn þar og og litlu búðirnar um leið og við nutum fjörugrar tónlistar nokkurra fiðlusnillinga sem þar spiluðu af mikilli list.

Síðdegis á sunnudag þ.e. klukkan fimm, meira að segja á slaginu, komu þau Angela og Alick gömlu góðu vinirnir mínir til okkar upp á hótel, en þau komu með lest frá West Byfleet til London til þess að hitta okkur og vera með okkur fram á kvöld. Þau höfðu tekið afsökun okkar um að hafa ekki tíma til að koma í heimsókn til þeirra gilda með því að þau kæmu þá bara og hittu okkur í London.   Að vanda voru þau búin að skipuleggja hvað gera skyldi um kvöldið.

Við byrjuðum á því að fara með leigubíl niður að Thames (Embankment) þar sem ekki var við annað komandi en að fara upp í stóra parísarhjólið Millenium London Eye.

Hér erum við á leiðinni upp, upp , upp.

ilondon3.jpg 

Okkur leist nú ekkert á þetta í byrjun, nema Sigurrós, sem var strax alveg ákveðin í að fara upp. Mér fannst einhvern veginn ekki hægt annað en að setja í sig kjark og fara upp, þegar þau voru komin þessa löngu leið til að hitta okkur og búin að skipuleggja þetta og Alick kominn með miðana.   

Hér sjáum við útsýnið, það er bara verst að
ég hef líklega ekki stillt vélina rétt því myndin er óskýr.

ilondon4.jpg 

Já, það var sko þess virði að fara upp í þetta stóra hjól því
veðrið var svo gott og loftið ótrúlega tært svo við sáum vel yfir alla borg.

Þegr við komum niður úr London Eye þá gengum við yfir göngubrúna á Thames og aðeins upp í bæ.  Þar komum við að bogadregnum göngum á stóru húsi (líkast höll og hallargarði en var það þó ekki). Fyrir innan göngin sáum við á jólatré fallega ljósum prýtt.  Þegar við svo komum nær þá var þarna í garðinum stórt skautasvell sem var lýst upp með kyndlum og jólaljósum.

ilondon_6.jpg

Þegar við höfðum horft í nokkra stund á mismikla snillinga á svellinu röltum við á nálægt veitingahús og borðuðum þar mjög enskan kvöldverð. Síðan skildu leiðir og við kvöddum þau hjón og gengum heim á hótel, líklega svona tuttugu mínútna eða hálftíma gang gæti ég trúað.

Morguninn eftir var svo farið út á flugvöll strax eftir morgunverð og við lentum í Keflavík klukkan fjögur síðdegis eftir velhappnaða ferð.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Mæðgurnar í London.

 1. afi says:

  Velkomin.
  Velkomin úr vel heppnaðri frægðar för. Svo tekur alvaran við að nýju.

 2. Anna Sigga says:

  Góðar myndir -flottar systur og mæðgur!!!
  Það hefur greinilega verið gaman í London og þú segir svo skýrt og skemmtilega frá að, svei mér þá, ég var komin þangað í anda. Reyndar á ég alveg eftir að koma til London en eins og Leifur Eiríksson, hinn 100 ára fjörkálfur, sagði um daginn; þá er hægt að ferðast víða í huganum…

 3. Gott..
  að ferðin var skemmtileg. Mig dauðlangar í svona mömmu-stelpu ferð með Svanfríði, ummm. Kær kveðja í kotið.

 4. Svanfríður says:

  Ohh,hvað þetta hefur verið gaman og skemmtilegar myndir.
  Þetta er það sem mig hefur alltaf langað til að gera með mömmu minni-að fara í svona helgarferð. Kannski einn daginn.
  Hafðu það gott og velkomin heim, Svanfríður.

 5. Halló!
  Ragna mín, hvar ertu? kveðja í kotið

 6. Ragna says:

  Ekki er ég nú alveg týnd, bara búin að vera með kinnholubólgu og einhvern vesaldóm en er nú komin á lyf við því sem lofa góðu.
  Þegar Guðlaug Hestnes auglýsti eftir mér þá mannaði ég mig upp og skrifaði langa færslu, alla vega lengri en ég hugðist gera, smellti síðan á staðfesta og viti menn á skjánum stóð að ekki næðist samband við netið. Ég bakkaði og komst þá að raun um að allt var dottið út. Mér er því allri lokið í bili og get ekki hugsað mér að byrja upp á nýtt. Ég sendi því góðar kveðjur og vonandi verður ekki langt að bíða að ég fari að sinna betur bloggvinum mínum, með heimsóknum til þeirra og færslu sem fær þá til þess að kíkja til mín.
  Alla vega ekki gleyma mér á meðan.

 7. batn batn…
  Láttu þér batna. Kær kveðja.

Skildu eftir svar