Hó, hó, hó. Hér er ég.

Ér er sem sé hér á sveimi eins og sjálfir jólasveinarnir. Það hefur heldur lítið farið fyrir mér og ég lítið pláss tekið í bloggheimum undanfarið.  Fyrst var það fjárans kinnholubólgan sem var að angra mig svo að ég marg settist við tölvuna en hafði enga orku og  stóð upp aftur án þess að skrifa neitt. Síðan fékk ég sterk fúkkalyf og hresstist við þau. Ég settist síðan við skriftir eitt kvöldið og var komin með dágóðan pistil en þegar ég smellti á staðfesta hvarf allt af skjánum.  Þá var mér allri lokið og ég gat ekki hugsað mér að byrja upp á nýtt.  Ég geri mér hinsvegar grein fyrir því að engin færsla þýðir engar heimsóknir og þar sem ég elska heimsóknir þá ætla ég að  reyna mitt besta til að komast í samband við ykkur aftur.

Ég kláraði loks jólakortin mín í gærkveldi, skrifaði nokkur bréf til erlendra vina og fór síðan með herlegheitin á pósthúsið í dag.  Þó það sé alltaf viss léttir þegar jólakortin eru komin í póstkassann þá þykir mér alltaf einna vænst um þetta verk fyrir jólin.  Að sjá hvað  ég á nú marga vini og við hvert nafn sem ég staldra við þá fylla ótal minningar hugann.
Í bókinni góðu um hamingjuna fann ég þennan skemmtilega texta:

Besta lækningin við elli
eru góðar minningar um
skemmtilegar stundir í
félagsskap vina.

Um helgina var ég umvafin vinum en þá vorum við dætur og barnabörn að baka saman laufabrauð. Sigurrós kom með Rögnu Björk austur á föstudaginn og þær voru hérna um helgina. Hér eru þær mæðgur tilbúnar í baksturinn.

advent072.jpg

Síðan kom liðsauki úr Grundartjörninni

advent073.jpg
 En þessi ungi maður hafði sem fyrr meiri áhuga á því
að kanna ljósamálin á heimilinu en setjast við útskurð.
Hér er hann íbygginn á leið að nýju ljósi sem hann uppgötvaði. 

advent071.jpg

Ég var svo niðursökkin í laufabrauðsskurðinn og baksturinn að ég gleymdi að taka myndir.
Sigurrós tók hinsvegar myndavélina mína í kaffitímanum og smellti af okkur einni. Jens tengdapabbi Sigurrósar leit inn og er hérna við borðið með okkur.

advent075.jpg

Síðan klæddum við okkur í öll hlý föt sem við fundum og
gengum út að planinu við Selfossbíó þar sem kveikt var á jólatré bæjarins
og Grýla og jólasveinarnir sem voru að koma til byggða brugðu á leik.

 advent074.jpg

Nú er komið fram yfir miðnætti, Haukur er kominn í rúmið og best að ég hætti þessu pári sem hvort sem er er hvorki fugl né fiskur og komi mér líka í rúmið.  Á morgun ætla ég að baka Sörurnar því þær má ekki vanta, annars ætla ég að reyna að hemja mig í bakstri fyrir þessi jól.  Það er nefnilega alltaf sama sagan – yfirlýsing um að nú verði bara bakaðar þrjár sortir og engar tertur, en þegar upp er staðið eru alltaf komnar miklu fleiri sortir og nokkrar tertur í frost. Já tertur, sem yfirleitt eru svo ekki borðaðar fyrr en á nýju ári því allir eru svo uppteknir við að borða góðan mat um jólin að engan langar í tertur. 
Hugsa sér hvað við lifum nú í miklum allsnægtum á meðan aðrir hafa ekki neitt.  Það er sorgleg staðreynd sem gott er að hafa í huga nú þegar ég býð ykkur         

Góða nótt.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Hó, hó, hó. Hér er ég.

  1. afi says:

    Jólaskap
    Sæl Ragna, þetta eru svo fallega myndskreyttir pistlar hjá þér að afi kemst bara í jólaskap við lesturinn. Verð að rjúka í jólakortin þótt fyrr hefði verið.

  2. Ólöf says:

    kveðja
    Ég kíki nú af og til í heimsókn á síðuna þína svona til að athuga hvernig þið hafið það þarna í Sóltúninu.
    Við erum búin að koma okkur vel fyrir í Kópavoginum, en hugsum nú stundum „heim“ í Sótún.
    Bestu jólakveðjur til ykkar

  3. Ragna says:

    Mikið er gaman að fá kveðju frá þér Ólöf. Við söknum ykkar kæru grannar en vonandi líður ykkur nú vel í borginni. Ef þið eigið leið hjá þá er alltaf heitt á könnunni í Sóltúninu..

  4. Þórunn says:

    Laufabrauð
    Kæra Ragna, loksins læt ég frá mér heyra eftir langa þögn, en ég þykist hafa haft góða afsökun. Ég þakka fyrir allar góðu kveðjurnar og hvatningarorðin til okkar Palla, það hefur glatt okkur mikið að fá svona góðar kveðjur úr ýmsum áttum. Ég ætlaði nú að tala um Laufabrauð, mér finnst það svo gott enn nenni ekki að búa það til fyrir mig eina Palli er ekki hrifinn af því. En við erum samt komin í jólagírinn og sendum hlýjar kveðjur til ykkar Hauks,
    Þórunn og Palli

  5. Stefa says:

    Sæl elsku Ragna mín,

    varð að kvitta fyrir innlitinu og þakka í leiðinni fyrir kveðjuna góðu á síðunni hennar Sigurrósar.

    Bakaðu eins mikið og þig lystir því maður á einmitt að gera það sem gleður mann á jólunum. Það má alltaf frysta og geyma góðar kökur til betri tíma ef þær borðast ekki um leið…

    *Knús*
    Stefa

  6. Bakstur…
    tilheyrir, ef við viljum baka mikið þá er allt gott með það. Ég elska að baka fyrir jólin þó svo að minnst sé etið af bakkelsinu þá. Hafðu það gott, og velkomin aftur í bloggheima.

  7. Anna Sigga says:

    Líf og fjör og jólalegt í kringum þig!
    Skemmtilegur pistill og enn skemmtilegri myndir. Mæðgurnar taka sig vel út. Bið að heilsa öllu frændfólkinu. Farðu vel með þig, Ragna mín!

Skildu eftir svar