Þess ber að geta sem vel er gert.

Við fórum á jólatónleika í gærkveldi, en það er í sjálfu sér ekkert fréttnæmt því flestir fara á jólatónleika einu sinni eða oftar á aðventunni.  Það sem mér finnst hinsvegar fréttnæmt er það, hvað hægt er að gera með bjartsýnina nánast eina að vopni.

Hér á Selfossi er maður nokkur sem heitir Kjartan Björnsson, en hann fær ýmsar hugdettur þegar kemur að því að hlú að menningunni hér í sveit. Það fá sjálfsagt margir fleiri slíkar hugmyndir en hugmynd að einhverju er ekki nóg ef henni er ekki komið í framkvæmd.
Í gærkveldi,  þegar við mættum á aðventutónleikana Hátíð í bæ, sáum við verða að veruleika eina af hugmyndum Kjartans og  svo mikið er víst, að hann þarf ekki að skammast sín fyrir þessa framkvæmd.

Tónleikarnir í gærkveldi voru alveg stórkostlegir.  Kjartan var ásamt aðstoðarfólki búinn að gera nýja íþróttahúsið Iðu, sem tilheyrir Fjölbrautarskólanum, að flottri tónleikahöll.  Búið var að klæða veggi með tjöldum og setja góða stóla í allan salinn. Svo var búið að  bygga svið sem var skreytt með jólatrjám í mismunandi hæðum, þessum mjóu með bláhvítu ljósunum (fékk það lánað í Blómavali) og tveir háir kertastjakar stóðu sitt hvoru megin á sviðinu.  Síðan féllu mismunandi lit ljósbrot yfir flytjendurna allt eftir því sem við átti hverju sinni og jók það mjög á hátíðleikann. Þess má síðan geta að salurinn var þéttsetinn gestum.

Tónlistaratriðin voru heldur ekki af verri endanum. Barnakór Selfosskirkju átti að hefja tónleikana en  stjórnandi kórsins hafði orðið að fara erlendis vegna veikinda í fjölskyldu hennar og það atriði féll því niður. Þess í stað opnuðu tónleikana með söng sínum tvær ungar og efnilegar stúlkur sem sungu eitt lag hvor. þá stigu á svið Guðrún Gunnarsdóttir og Friðrik Ómar með skemmtilegum söng og afslappaðri framkomu og smá spjalli á milli laga. Næst kom gamla kempan Ragnar Bjarnason og með honum Þorgeir Ástvaldsson og eftir að þeir höfðu sungið nokkur lög og gantast smá á milli, þá barst þeim góður liðsauki þegar Diddu steig á svið og söng dúett með Ragga Bjarna við mikinn fögnuð. Síðan söng Diddú nokkur gullfalleg lög af sinni alkunnu snilld.  Síðan var það leynigesturinn, en það var tónlistarfólk héðan úr Árborg og Þorlákshöfn. Stúlka og karlmaður sem sungu og undirleikari þeirra. Þau voru kynnt sem best geymda leyndarmálið og eitt er víst, að þau eiga eftir að verða nöfn sem maður man. Ég treysti mér hinsvegar ekki til þess að hafa nöfnin þeirra rétt eftir (vistun í heilabúið virðist eitthvað hafa mistekist) en kannski get ég birt þau síðar.  Að loknum söng þeirra stóðu gestir upp til að hylla þau með lófaklappi.

Eftir stutt hlé var komið að lokaatriðinu, en þá komu Karlakór Selfoss ásamt Diddú okkur í hæstu hæðir með yndislegum jólasálmum og síðan stóðu gestir upp og allir sungu saman Heims um ból.
Kjartan kallaði síðan upp á svið alla þá sem höfðu lagt hönd á plóg til þess að Hátíð í bæ gæti orðið að veruleika og færði þeim öllum bómvönd.  Mér fannst það skemmtilegt að hann byrjaði á því að kalla upp til sín húsvörðinn í íþróttahúsinu sem hann kallaði kraftaverkamanninn og síðan hvern af öðrum og endaði á því að kalla upp þann sem hefði keypt miða númer eitt, því með því að þora að kaupa fyrsta miðann hafi viðkomandi sýnt að hann, sem í þessu tilfeli var reyndar hún, hefði trú á að þetta yrði að veruleika.  Ekki kallaði Kjartan upp fjölskyldu sína sem hefur án efa fengið stórt knús að þessu loknu.

Kynnir á tónleikunum var séra Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur í Oddaprestakalli sem auk þess að kynna atriðin var með ýmis gullkorn og skemmtilegan fróðleik.

Ég hefði kannski ekki farið að gera því svona góð skil þó ég hefði farið á hefðbundna jólatónleika. Mér finnst hins vegar svo gaman að sjá hvað einstaklingur sem hefur ekkert á bak við sig nema hjálpsama fjölskyldu og bjartsýni, getur áorkað í menningarmálum. Hér er enginn menningarsalur, svo furðulegt sem það er nú því hér er t.d. blómlegt tónlistarlíf og hefur verið í marga áratugi. En með þrautsegju, áræði og smekkvísi var hér á Selfossi svo sannarlega hátíð í bæ í gærkvöldi og fyrir það vil ég þakka. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Þess ber að geta sem vel er gert.

  1. Þetta er..
    maður að mínu skapi, og gott að fólk fjölmennti. Vonandi sleppið þið vel frá vondri veðurspá. Kveðja í kotið.

  2. Þórunn says:

    Við gerum of lítið af því að hrósa
    Það er rétt hjá þér Ragna mín að við mættum vera duglegri að geta þess sem vel er gert. En þetta hefur sannarlega verið gott fóður fyrir sálina, það lyftir manni í hæstu hæðir að hlusta á góða tónlist, og aðventutónleikar eru eitthvað alveg sérstakt. Þessi maður er greinilega kraftaverkamaður sem á allt hrós skilið. Góð kveðja í óveðrið úr frostkyrrðinni hérna.
    Þórunn

  3. Svanfríður says:

    Ég hef átt í svo miklum erfiðleikum með að komast inn á síðuna þína að ég var farin að ímynda mér að þú myndir halda að nú væri ég hætt að koma.
    En hér er ég og óska þér góðs dags.

Skildu eftir svar