Annað en til stóð.

Ég fór með Guðbjörgu í Kópavoginn í gær til þess að sækja börnin sem höfðu verið hjá pabba sínum um helgina. Við fórum snemma til þess að hafa tíma til að skreppa aðeins í Smáralindina. Þetta er nú það fyrsta sem ég kem í stórmarkað á þessari aðventu, ef Londonferðin er ekki talin með. Það var mikill munur að rölta um Smáralindina eða vera í mannhafinu í stórverslununum í London og ekki þessi hávaða poppmúsik sem þar glumdi svo hátt að ég óskaði þess oft að hafa haft eyrnatappa með mér –  ég er sko ekki að grínast.

Í Smáralindinni var spiluð jólatónlist, sem ekki var spiluð hærra en svo að það var hægt að tala saman. Það var því bara afslappandi og gaman að rölta þarna um.  Þegar Guðbjörg var búin að finna það sem hún þurfti að versla þá enduðum á því á því að rölta aðeins í gegnum Debenhams. Við vorum bara si svona að skoða hvað væri á boðstólum og láta tímann líða því  það var að nálgast þann tíma sem pabbi krakkanna ætlaði að koma með þau til okkar, en þau höfðu verið með honum á jólaballi. 
Þetta rölt mitt í gegnum Debenhams varð hinsvegar nokkuð afdrifaríkt fyrir mig.  Ekki það að ég hafi neitt slasað mig, lent í átökum eða verið tekin föst fyrir óspektir. Nei ekkert af þessu kom fyrir mig. Ég sá hinsvegar á langleið kápu, sem æpti á mig að hún væri þarna í þeim eina tilgangi að ganga í augun á mér.  Þegar ég þokaðist nær þá varð ég enn hrifnari af sniðinu á kápunni og þegar ég sá að hún kostaði aðeins 16 þúsund krónur, sem ekki ku vera mikið fyrir flotta kápu þá fór ég að hugsa alvarlega um þetta. Ég sleppti samt ekki eintali sálarinnar og minnti mig á að ég ætti sparikápu heima "já en hún er svo stór og þykk og alveg skósíð og stundum vantar eitthvað sem er ekki eins bosmamikið – Ég keypti mér heldur ekkert nema nærföt og þrjá boli í London svo ég á þetta örugglega inni og …" Þegar þarna var komið samtali mínu við sálina þá rauf Guðbjörg samtalið og sagði ákveðið "þessa kápu kaupir þú".   Ég þurfti samt að máta kápuna þrisvar til þess að reyna að finna eitthvað það að henni, að ég færi ekki upp úr þurru að kaupa mér kápu því það var það síðasta sem ég hafði í huga í þessari verslunarferð okkar.

Ég ætla ekkert að hafa söguna lengri því kápan hangir hérna inni í skáp og bíður jólanna. Ég tek mér svo öðru hvoru pásu frá jólastússinu  fer fram í skáp, tek kápuna út úr skápnum, máta hana og sný mér í hringi í speglinum og brosi eyrnanna á milli.

Ég þarf sko ekki  fleiri jólagjafir en þessa sem ég gaf mér sjálf.  Ef ég gæti sett broskall í textann þá kæmi hann hér.

Nú hef ég enn einu sinni skrifað allt annað en til stóð en hvað um það …

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Annað en til stóð.

  1. afi says:

    Góðverk
    Á aðventunni á maður það til að vera svolítið meir. Gefur aura í bauka. Kaupir jafn vel happadrættismiða og jólakort sem koma ókölluð innum bréfalúguna. Enn aðrir miskunna sig yfir einmana kápum sem bíða þess hlutskiptis að hanga aleinar í myrkri verslun yfir jólin. Nú hefur þú Ragna mín tekið að þér hlutverk miskunsama Samverjans. Það var þér líkt. Ekki hissa þótt þú sért ánægð með þig þessa stundina.

  2. Sigurrós says:

    Þetta voru frábærar fréttir! Þú áttir svo sannarlega skilið að fá þér þessa fallegu kápu 🙂 Hlakka til að sjá þig í henni!

  3. Ragna says:

    Svargrá samviska.
    Fyrst las ég kommentið hans Afa og þá fékk ég pínulítið samviskubit, því þrátt fyrir það að hafa greitt fyrir kort og ýmislegt sem góðgerðarfélög hafa sent fyrir þessi jól þá hefði ég auðvitað frekar átt að setja þessa peninga í einhvern góðan söfnunarbauk. Síðan las ég það sem Sigurrós skrifar og þá leyfði ég mér að taka aftur gleði mína og sætta mig við að lifa með minni gráu samvisku.

  4. gott..
    allir fá þá eitthvað fallegt…þú ert örugglega fín í kápunni mín kæra. Góðar kveðjur úr Hornafirði

  5. Karen says:

    já það er naumast
    Mér líst á þetta hjá þér, það má alveg láta eftir sér svona stundum 🙂
    Gleðilegt jól

  6. Svanfríður says:

    Allir fá þá eitthvað fallegt…til hamingju með kápuna.

  7. Þórunn says:

    Örugglegaa falleg kápa
    Ég segi ekki annað en það að ég hefði örugglega látið þessa kápu heilla mig, eftir að hafa uppgötvað hvað við höfum líkan smekk á fötum, engin spurning þessi kápa var handa þér fyrst ég var ekki búin að kaupa hana.
    Njóttu vel, það væri gaman að fá mynd af þér í kápunni.
    Þórunn

  8. Linda says:

    Er það ekki undarlegt hversu hátt sumir hlutir geta kallað á mann.. Alveg er ég með það á hreinu að þessi kápa hefur hangið þarna bara svo að ÞÚ myndir reka í hana augun..
    Til hamingju með snemmbúna jólagjöfina..

    Kveðjur..

  9. sveinki…
    Varð að kíkja aftur. Fóru ekki sveinkakaupin eins fram fyrir síðustu jól? Manstu þann stóra sem æpti á þig? Ef kápan er eins fín og sveinki, þá ertu í góðum málum. Ef ég man þetta vitlaust, þá hnipptu í mig!

  10. afi says:

    Einskær gleði
    Ekki var það meining afa að ræna þig jólagleðinni. Gott að hún kom tvíelfd til baka. Annars hefði afi verið í vondum málum yfir jólin. Innileg ósk um gleði og frið á jólum og farsæld á komandi ári.

Skildu eftir svar