Miklar breytingar.

Enn einu sinni er orðinn allt of langur tími síðan ég setti færslu í dagbókina mína. Ég veit varla hvar ég á að byrja. Þetta hafa verið viðburðarríkir dagar, reyndar svo viðburðarríkir að ég hef ekki haft nokkurn tíma til að svo mikið sem hugsa til dagbókarinnar minnar. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ég svo heppin að fá hana Ingunni mágkonu til mín í heimsókn og gisti hún í tvær nætur. Hún kom á sunnudagskvöldið með tengdamömmu og Ingabirni í kvöldmat. Guðbjörg kom líka í mat og krakkarnir og síðan Kjartan.  Þá komu komu Loftur, Dröfn og stelpurnar og Linda, Jóhann og strákarnir, en þau voru að koma úr Sælukoti. Daginn eftir heimsóttum við Ingunn svo Birnu upp að Reykjum og svo fórum við og borðuðum í Fjöruborðinu á Stokkseyri. Þegar við svo fórum til borgarinnar þá þá heimsóttum við Sigurrós og ég leit síðan aðeins inn hjá tengdamömmu.


Ég gisti svo í Hafnarfirðinum því daginn eftir var saumaklúbbur hjá Ástu. Það var því tilvalið að heimsækja hárgreiðslukonuna mína í Reykjavík og láta fríska sig aðeins upp – ekki vanþörf á því. Á miðvikudaginn heimsótti ég svo hana Tótu mína á Ásveginn. Ég leit líka til hennar Helgu Guðmunds sem er orðin kirkjuvörður í Langholtskirkju. Um kvöldið fór ég svo í saumaklúbbinn og úðaði í mig fínu tertunum hennar Ástu og svo var aftur gist í Hafnarfirðinum. 


Eftir að ég kom aftur austur hefur mikið gengið á því Guðbjörg var að flytja. Hún var að byrja í sambúð með honum Kjartani sem hefur hvílíkt brætt hjarta hennar undanfarið. Hún ákvað að leigja út húsið sitt og þau tóku saman á leigu einbýlishús hérna á Selfossi til þess að hefja þar tilraunabúskap sinn.  Það er meiriháttar pússl að stokka saman tveimur stórum búslóðum og tveimur fjölskyldum en mér sýnist á öllu að það gangi nú allt upp. Börnin virðast í sjöunda himni. Unglingurinn Viðar sem er alveg hjá pabba sínum fór strax í velja liti og að mála herbergið sitt og Karlotta og Katrín voru ánægðar með að eiga að deila saman herbergi þegar Katrín er hjá pabba sínum. Oddur var líka mjög hrifinn af litla herberginu sínu sem er reyndar bara stúkað af með skápum í enda á breiðum gangi.  Sem betur fer er það með glugga. Það voru sem sagt allir ánægðir.  Það er vonandi að áframhaldið verði allt eins gott og byrjunin. Þetta var mikil vinna og ekki alveg séð fyrir endann á þessum flutningum. Verst var þó hvað það þurfti að þrífa svakalega mikið í húsinu sem þau fengu. Þar hafði búið einn maður í nokkur ár og það er kannski ljótt að segja það en ég held að hann hafi ekkert verið að fara á taugum út af tilþrifum. Við urðum að taka allar hansagardínur og aðrar gardínur niður og þvo og alla glugga að innan svo fórum við með þvegil upp um alla veggi o.fl. o.fl.  Mér fannst þetta svo gaman að ég spáði ekkert í að kannski fengi ég í bakið. Í dag hef ég hinsvegar gengið alveg í vinkil. Af hverju er manni alltaf refsað fyrir að gera eitthvað skemmtilegt?  Ég bara mótmæli!!!  Ég sem bar ekki einn einasta kassa en var bara í tilþrifunum. 


Sigurrós er í vetrarfríi og kom austur um hádegi á sunnudaginn. Jói verður hinsvegar að geyma það að koma því hann er að drukkna í verkefnavinnu. Sigurrós dreif sig með mér í beint í Grashagann að hjálpa til við flutningana. Hún fór aftur í bæinn uppúr hádegi í dag og var þá búin að tengja við tölvuna mína skanna sem hún lánaði mér og tengja og setja inn nýjan prentara sem ég varð að fá mér því sá gamli hélt uppteknum hætti sínum að prenta allt á dulmáli og strikum. Hann hefur nú fengið hvíldina blessaður, eftir að sú yfirlýsing var gefin að engan veginn borgaði sig að reyna að bjarga honum.


Haukur er kominn austur og auðvitað fór hann beint í hjálparstarfið í dag og það kemur mér ekki á óvart að hann geri það sama á morgun.


Það er komið fram yfir miðnætti og ég ætla að gera tilraukn til þess að standa upp úr þessum stól sem annars er besti stóllinn til að sitja í eins og málin standa.


Allavega læt ég hér staðar numið PUNKTUR

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Miklar breytingar.

  1. Vá, það er líf og fjör í kringum þig!
    Sæl Ragna mín!
    Ég er reyndar alveg sammála þér að það sér fúllt að vera refsað fyrir það sem er gaman að gera. Reyndar hef ég nú svo sem ekkert gaman af þrifum nema stöku sinnum. Bestu kveðjur til Guðbjargar. 😉

Skildu eftir svar